Stefna og stjórnarhættir


Í Landsbankanum er lögð mikil áhersla á að framþróun og nýsköpun í bankaþjónustu haldist í hendur við öflugan og traustan rekstur.

Fara neðar
Stefna Landsbankans er að viðskiptavinir geti með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum hvar og hvenær sem er.

Árangursrík framþróun og aðhald í rekstri

Undanfarin ár hefur Landsbankinn kynnt fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu, bæði fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Þessar nýju lausnir hafa hlotið afar góðar viðtökur hjá viðskiptavinum og ánægja viðskiptavina með þjónustu bankans hefur aukist jafnt og þétt. Gerð stafrænna lausna kallar á verulegar fjárfestingar en með því að forgangsraða og gæta aðhalds hefur tekist að halda rekstrarkostnaði bankans í skefjum. Bankinn kemur t.a.m. vel út í erlendum samanburði. Í gögnum sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin (European Banking Authority, EBA) birti sl. haust kom fram að Landsbankinn væri með ellefta lægsta kostnaðarhlutfall banka í Evrópu. Í samanburði EBA voru birtar upplýsingar um rekstur og efnahag 131 banka frá 27 löndum á Evrópska efnahagssvæðinu og voru nýjustu gögnin frá 30. júní 2019.

Alhliða fjármálaþjónusta sem mætir þörfum viðskiptavina

Stefna Landsbankans miðar að því að viðskiptavinir finni að með bankanum nái þeir árangri og að bankinn og viðskiptavinir hans njóti gagnkvæms ávinnings; enn fremur að bankinn bjóði alhliða fjármálaþjónustu sem mætir þörfum viðskiptavina, sé hreyfiafl og starfi í sátt við samfélagið og umhverfið.


Landsbankinn var efstur í Íslensku ánægjuvoginni 2019 hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu.

Nýjar áherslur og ný stefna til framtíðar

Árið 2017 voru kynntar nýjar stefnuáherslur þar sem megináhersla var lögð á framfarir í stafrænni þróun og þjónustu við viðskiptavini. Stefnuáherslurnar voru í fjórum liðum:


Aðgengi: Viðskiptavinir geta með einföldum hætti sinnt öllum helstu bankaviðskiptum sínum hvar og hvenær sem þeim hentar. Þeir hafa gott aðgengi að upplýsingum og góða yfirsýn yfir fjármálin.

Skilvirkni: Viðskiptavinir spara tíma og fyrirhöfn með lausnum bankans. Erindi þeirra eru afgreidd hratt og örugglega með þeirri þjónustuleið sem þeir kjósa.

Virðisaukandi: Viðskiptavinir fá persónulega þjónustu sem er sniðin að þeirra þörfum. Þeir upplifa að samband þeirra við bankann sé verðmætt og að viðskiptasagan skipti máli.

Frumkvæði: Viðskiptavinum er sýndur áhugi og á þá er hlustað. Þeir finna að starfsfólk bankans vinnur starf sitt af fagmennsku og sýnir frumkvæði.


Markviss vinna er nú hafin við gerð stefnu til næstu ára þar sem bankinn mun setja sér ný markmið í takt við breytt verkefni og áskoranir. Áætlað er að þessari vinnu ljúki um mitt árið og að ný stefna verði kynnt í haust.


Landsbankinn er leiðandi á vettvangi samfélagsábyrgðar fyrirtækja á Íslandi og leggur áherslu á að innleiða samfélagsábyrgð í kjarnastarfsemi sína.

Kafli um samfélagsábyrgð

Leiðandi í bankaþjónustu á Íslandi

Landsbankinn veitir víðtæka bankaþjónustu og megináhersla er lögð á að tryggja að þjónustan mæti þörfum viðskiptavina og að reksturinn sé traustur bæði til lengri og skemmri tíma. Sterk kerfisleg undirstaða, markaðshlutdeild og stærð, þjónustuleiðir, persónuleg viðskiptasambönd og framúrskarandi starfsfólk eru grunnstoðir bankans sem byggt verður á til framtíðar. Vöruþróun, breytingar og nýsköpun eru fastir og nauðsynlegir þættir í vexti og rekstri bankans og stuðla að því að bankinn sé leiðandi í bankaþjónustu á Íslandi.

Stafræn þjónusta og persónuleg viðskiptasambönd

Persónuleg þjónusta er mikilvæg og reynslan sýnir að stafræn þjónusta og persónuleg viðskiptasambönd fara vel saman. Hjá Landsbankanum er litið svo á að velgengni í stafrænni þjónustu geti ráðist af fjölmörgum þáttum, til dæmis notendaupplifun, aðgengi, þjálfun starfsfólks, öryggi, áreiðanleika, verði, einfaldleika, ímynd og markaðssetningu. Lykilatriði er að viðskiptavinurinn fái ávallt jafn góða þjónustu, hvaða leið sem hann kýs í samskiptum við bankann.

Margar nýjungar kynntar til sögunnar á árinu 2019

Á árinu 2019 kynnti Landsbankinn fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Sérstök áhersla var lögð á stafrænar greiðsluleiðir og sjálfvirkni í umsóknum og afgreiðslu á skammtímalánum fyrir einstaklinga. Apple Pay fékk gríðargóðar viðtökur og notkun á öllum sjálfsafgreiðslulausnum bankans fer vaxandi. Þá var app Landsbankans valið app ársins á Íslensku vefverðlaununum.

Nánar er fjallað um nýjungar í stafrænni þjónustu í kaflanum um betri bankaviðskipti.

Togari

Sala eigna Landsbankans á árinu 2019

Markmið stefnu Landsbankans um sölu eigna er að leggja grunn að vönduðum innri stjórnarháttum bankans hvað varðar sölu eigna og takmarka þá rekstrar- og orðsporsáhættu sem sala eigna getur falið í sér. Stefnunni er ætlað að stuðla að gagnsæi og trúverðugleika við sölu eigna og efla þannig traust til bankans. Sala eigna fer fram á viðskiptalegum forsendum þannig að sanngjarnt verð fáist fyrir eignirnar.

Eignir til sölu í árslok 2019

Alls voru 273 fullnustueignir bankans til sölu 31. desember 2019. Bókfært verðmæti þeirra var um 727 m.kr. Auk þess voru þrjár fasteignir, sem áður voru notaðar undir starfsemi bankans, á sölu um áramótin.

Í árslok 2019 voru eignarhlutir í tólf óskráðum félögum í sölumeðferð. Eignarhlutirnir eru ýmist í eigu Landsbankans eða Hamla fyrirtækja ehf., dótturfélags bankans. Upplýsingar um eignarhlutina voru m.a. birtar á vef bankans.

Eignir sem voru seldar á árinu 2019*

Á árinu 2019 seldi Landsbankinn 93 fullnustueignir, eina fasteign sem var í eigu bankans og hafði verið notuð undir starfsemi hans, tvær bifreiðar og 67 listmuni.** Heildarsöluverðmæti þessara eigna nam um 843 m.kr.***

Fullnustueignir í árslok 2019 skiptust í eftirfarandi eignaflokka
Íbúðir 3
Lóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði 28
Sumarhúsalóðir 234
Aðrar fasteignir 1
Jarðir 3
Bílar og tæki 3
Birgðir 1
   273
Eignir sem seldar voru á árinu 2019 Fjöldi Samtals söluverð
Íbúðir 14 407.300.000
Lóðir 3 62.000.000
Atvinnuhúsnæði 5 223.300.000
Jarðir 1 61.500.000
Sumarhúsalóðir 16 24.310.000
Bátar 6 14.900.000
Annað 69 13.279.000
Bílar og tæki, fullnustueignir 49 35.973.305
Samtals 163 842.562.305

*Verðbréf og aðrir fjármálagerningar sem teknir hafa verið til viðskipta á markaði eru seldir á markaði og telst slík sala fela í sér opið söluferli. Slík viðskipti eru undanskilin í töflunni hér að ofan.

**Alls eru um 2.300 listmunir í eigu bankans, aðallega málverk en einnig keramikgripir, eftirprentanir, ljósmyndir og fleira. Árið 2009 lét menntamálaráðuneytið gera listfræðilegt mat á listaverkasafni bankans. Lagt var til að verk í flokki I yrðu þjóðareign, verkum í flokki II yrði ekki ráðstafað án samráðs við Listasafn Íslands og verk í flokki III yrðu boðin að láni til menningarstofnana. Önnur verk féllu utan við matið og bankanum var frjálst að ráðstafa þeim án kvaða. Síðan hafa verk sem voru í eigu sparisjóða sem bankinn hefur sameinast bæst við safnið og hefur sambærilegt mat verið lagt á þau. Alls falla um 1.600 verk utan ofangreindra þriggja flokka og einungis verk utan þeirra hafa verið eða verða seld. Söluverðmæti verkanna sem voru seld á árinu 2019 var samtals um 2,2 milljónir króna, að teknu tilliti til sölulauna. Salan fór fram í opnu söluferli (netuppboð).

***Bankaráð samþykkti frávik frá opnu söluferli varðandi sölu einnar fasteignar á árinu 2019. Söluverðmæti var um 61,5 milljónir króna.

Hrein afkoma ríkisins af Landsbankanum nemur 184,1 milljarði króna

Við stofnun Landsbankans hf. haustið 2008 lagði íslenska ríkið bankanum til 122 milljarða króna. Þar með eignaðist ríkið 81,33% hlut í bankanum. Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans 11. apríl 2013 þegar 18,67% hlutur, sem var í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf., rann til íslenska ríkisins og Landsbankans í samræmi við samkomulag frá desember 2009.

Frá stofnun Landsbankans til og með ársins 2019 hafa arðgreiðslur bankans til ríkisins numið um 140,5 milljörðum króna, eða um 115% af upphaflegu kaupverði. Þegar tekið hefur verið tillit til vaxtakostnaðar ríkisins, arðgreiðslna og upphaflegs kaupverðs, nemur kostnaður ríkisins vegna kaupa á eignarhlut sínum í bankanum 62,3 milljörðum króna, en verðmæti hlutarins* nam um áramót 246,4 milljörðum króna. Hrein afkoma ríkisins samkvæmt þessu er því um 184,1 milljarðar króna.

Ríkissjóður heldur auk þess á hlutum í Landsbankanum vegna eignarhalds ríkisins í Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Norðurlands en ekki er tekið tillit til þessara hlut í ofangreindri samantekt. Eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum var samtals 99,8% af útistandandi hlutum í árslok 2019.

Afkoma ríkisins af eignarhlut í Landsbankanum
Stofnframlag -122.000
Vaxtagreiðslur af stofnframlagi -76.347
Framreiknuð vaxtaáhrif** -4.473
Arðgreiðslur 140.530
Hlutdeild í eigin fé 246.428
Hrein afkoma ríkisins 184.138

* Miðað við bókfært eigið fé 31.12.2019

** Framreiknuð vaxtaáhrif vaxtagreiðslna og arðgreiðslna


Allar tölur í milljónum króna

Fyrirmyndafyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Góðir stjórnarhættir Landsbankans leggja grunninn að traustum samskiptum hluthafa, bankaráðsmanna, stjórnenda, starfsmanna og annarra hagsmunaaðila og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun bankans. Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti og gerðar eru reglulegar úttektir á því hvort stjórnarhættir bankans á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.

Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti tilkynnti í apríl 2019 að hún hefði endurnýjað viðurkenningu Landsbankans sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum. Það eru Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins, Nasdaq OMX Iceland og Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands sem standa að viðurkenningunni.

Viðurkenningin byggir á úttekt Deloitte ehf. á stjórnarháttum bankans. Úttektin tekur mið af Leiðbeiningum um góða stjórnarhætti sem eru gefnar út af Viðskiptaráði Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Nasdaq OMX Iceland. Rannsóknarmiðstöð um stjórnarhætti við Háskóla Íslands er umsjónaraðili viðurkenningarferlisins.

Landsbankinn hlaut viðurkenninguna fyrst árið 2014 og hefur hlotið hana árlega síðan. Viðurkenningin er fyrst og fremst veitt til þess að ýta undir umræður og aðgerðir sem efla góða stjórnarhætti.


Stjórnarháttayfirlýsing

Landsbankinn fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja og gerir grein fyrir þessum þætti í stjórnarháttayfirlýsingu bankans ár hvert. Þar koma einnig fram nánari upplýsingar um bankaráð og undirnefndir þess.

Lesa stjórnarháttayfirlýsinguna í heild

Réttindi viðskiptavina og meðferð persónuupplýsinga

Landsbankinn virðir réttindi einstaklinga sem þeim eru falin í lögum um persónuvernd í samræmi við stefnu bankans um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Einstaklingar geta nýtt sér réttindagátt bankans til að óska eftir aðgangi að eigin persónuupplýsingum sem bankinn notar í starfsemi sinni, óska eftir leiðréttingu eða biðja um að tilteknum persónuupplýsingum um þá verði eytt úr kerfum bankans og fleira.

Á árinu 2019 afgreiddi Landsbankinn 44 beiðnir um aðgang að upplýsingum, 21 beiðni um eyðingu, níu beiðnir um leiðréttingu upplýsinga og eina beiðni um flutning þeirra til annars þjónustuveitanda. Persónuverndarfulltrúa bankans bárust engar kvartanir yfir meðferð persónuupplýsinga viðskiptavina eða annarra á árinu.

Aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Í upphafi árs 2019 tóku gildi ný lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á árinu var unnið að breytingu á verklagi og kerfum sem lutu að breyttum lagakröfum sem og aukinni áherslu bankans á að draga enn frekar úr hættu á því að þjónusta bankans verði misnotuð til peningaþvættis eða fjármögnunar hryðjuverka. Rafrænt eftirlit hefur verið eflt og starfsfólki sem sinnir þessu eftirliti hefur verið fjölgað. Gert hefur verið ítarlegt áhættumat á viðskiptavinum bankans sem og á starfseminni í heild sinni. Landsbankinn mun á árinu 2020 halda áfram að þróa eftirlitskerfi bankans og gera verklag við viðvarandi eftirlit með samningssamböndum skilvirkara og notendavænna. Gert er ráð fyrir að kostnaður bankans við þennan málaflokk muni áfram aukast samhliða auknum kröfum.

Á árinu 2019 var Ísland sett á lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, yfir ríki sem hafa lýst yfir vilja til að framfylgja aðgerðaráætlun um úrbætur í málaflokknum. Áhrif þessa á starfsemi og þjónustu Landsbankans hafa verið takmörkuð enda lúta úrbótakröfur FATF ekki að starfsemi fjármálafyrirtækja. Þó hafa erlendar millifærslur í einhverjum tilfellum tekið lengri tíma og þá hafa nokkur fjármálafyrirtæki sem eru í takmörkuðum samskiptum við Landsbankann og í litlum tengslum við Ísland, hafnað greiðslum til og frá fjármálafyrirtækjum á Íslandi.