Bankaráð og framkvæmdastjórn


Bankaráð ber ábyrgð á starfsemi bankans og stefnumótun og hefur jafnframt yfirumsjón með því að starfsemi og rekstur sé í samræmi við lög, samþykktir bankans og aðrar reglur sem um starfsemina gilda. Meginstarfsemi bankans skiptist milli sex sviða, þriggja tekjusviða og þriggja stoðsviða.

Fara neðar

Bankaráð

Bankaráð hefur yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir. Bankaráð mótar almenna stefnu bankans og skal sjá til þess að skipulag og starfsemi bankans sé jafnan í réttu horfi. Bankaráð hefur einnig með höndum almennt eftirlit með rekstri bankans og tryggir að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Helga Björk Eiríksdóttir

Helga Björk Eiríksdóttir starfar á sviði fasteignaþróunar og ráðgjafar og rekur jafnframt gistiþjónustu á Akureyri. Hún var áður fjárfesta- og almannatengill hjá Marel ásamt því að gegna formennsku í stjórn Sparisjóðs Svarfdæla. Þá hafði hún umsjón með samskiptamálum fyrir skilanefnd og slitastjórn Kaupþings hf. á árunum 2009 og 2010. Hún var markaðs- og kynningarstjóri Nasdaq OMX kauphallarinnar á Íslandi um átta ára skeið.Helga Björk er með MBA-gráðu frá Háskólanum í Edinborg. Hún útskrifaðist með BA-gráðu í ensku og ítölsku frá Háskóla Íslands 1997 og lauk prófi í hagnýtri fjölmiðlun 1999 frá sama skóla. Helga Björk lauk prófi í markaðs- og útflutningsfræði frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 2002 og hefur lagt stund á verðbréfaviðskiptanám við Háskólann í Reykjavík. Helga Björk var kjörin í bankaráð Landsbankans í apríl 2013 og hefur verið formaður bankaráðs frá árinu 2016. Hún gegnir einnig formennsku í Starfskjaranefnd. Berglind Svavarsdóttir, varaformaður

Berglind Svavarsdóttir er hæstaréttarlögmaður og meðeigandi hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur. Berglind lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands árið 1989. Berglind er með diplóma í stjórnun frá Háskólanum á Akureyri. Hún starfaði hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins á árunum 1988-1989 og sýslumanninum á Húsavík 1990-1996. Hún hefur rekið eigin lögmannsstofu og fasteignasölu, var meðeigandi Regula lögmannsstofu og meðeigandi Acta lögmannsstofu þar til Acta sameinaðist Lögfræðistofu Reykjavíkur. Berglind hefur gegnt ýmsum stjórnarstörfum og átt sæti í opinberum nefndum. Berglind var kjörin formaður Lögmannafélags Íslands í maí 2018. Berglind var kjörin í bankaráð í apríl 2016 og er varaformaður bankaráðs.Einar Þór Bjarnason

Einar Þór Bjarnason hefur starfað sem meðeigandi og rekstrarráðgjafi hjá Intellecta, m.a. á sviði stefnumótunar og breytingastjórnunar, frá árinu 2001. Hann lauk prófi í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og meistaragráðu í iðnaðar- og framleiðsluverkfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum árið 1992. Þá lauk hann MBA-námi frá Norwegian School of Management í Osló árið 1997. Einar Þór starfaði sem verkefnisstjóri hjá Eimskip 1987-1989 og hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins 1989-1991 en hefur starfað sem stjórnunarráðgjafi frá 1992, hérlendis og í Noregi, m.a hjá Accenture og Adcore Strategy. Einar hefur setið í stjórnum íslenskra fyrirtækja og samtaka og sat m.a. í stjórnum Stjórnvísi og Íslensku ánægjuvogarinnar. Hann gegnir nú stjórnarformennsku í Intellecta ehf. Einar Þór var kjörinn í bankaráð í apríl 2016 og er formaður Framtíðarnefndar.Guðbrandur Sigurðsson

Guðbrandur er framkvæmdastjóri Borgarplasts hf. Hann lauk BS-prófi í matvælafræði árið 1985 og MBA-prófi frá Edinborgarháskóla 1994. Hann starfaði hjá Íslenskum sjávarafurðum og forverum þess á árunum 1985-1996 og var ráðinn einn af framkvæmdastjórum félagsins við stofnun þess árið 1991. Þá gegndi hann starfi framkvæmdastjóra hjá ÚA og Brimi 1996-2004. Á árunum 2005-2008 var hann framkvæmdastjóri MS, framkvæmdastjóri Nýlands ehf. 2008-2010 og framkvæmdastjóri Plastprents hf. 2010-2012. Hann var síðan framkvæmdastjóri endurskoðunarfyrirtækisins PwC á Íslandi 2013-2016 og framkvæmdastjóri Heimavalla hf. 2016 - 2019. Hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og samtaka á sínum starfsferli, meðal annars BL hf., Haga hf. og Reita hf. Hann situr nú í stjórn Reykjavik Creamery ehf. og Talnakönnunar hf. Guðbrandur var kjörinn í bankaráð í apríl 2019.Hersir Sigurgeirsson

Hersir Sigurgeirsson er dósent í fjármálum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og sjálfstætt starfandi ráðgjafi. Hersir lauk BS-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1995, meistaraprófi í fjármálastærðfræði frá Stanford University árið 1999 og doktorsprófi í hagnýtri stærðfræði frá sama skóla 2001. Hann hefur einnig lokið prófi í verðbréfamiðlun. Hersir hefur mikla reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hann starfaði fyrir Saga Capital á Akureyri, fyrst sem framkvæmdastjóri áhættustýringar og rekstrar og síðar sem forstjóri. Einnig starfaði hann sem ráðgjafi hjá Alþjóðabankanum í Washington 2013-2015. Hersir hefur setið í stjórnum fyrirtækja, í nefndum og verið kallaður til sem sérfróður meðdómari og dómkvaddur matsmaður í fjölda dómsmála vegna verðmats, skattamála o.fl. Hersir var kjörinn í bankaráð í apríl 2016 og er formaður Áhættunefndar.Sigríður Benediktsdóttir

Sigríður lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands 1995 og BS-prófi í tölvunarfræðum frá sama skóla 1998. Sigríður lauk doktorsprófi í hagfræði frá Yale-háskóla í maí 2005. Á árunum 1995-1997 starfaði Sigríður hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og sem verkefnisstjóri og ráðgjafi hjá Hugviti hf. 1997-1998. Hún starfaði sem hagfræðingur hjá Seðlabanka Bandaríkjanna á árunum 2005-2007. Frá 2007 starfaði Sigríður sem kennari og aðstoðarmaður deildarforseta við hagfræðideild Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Samhliða stundaði hún rannsóknir á sviði fjármálahagfræði, með áherslu á fjármálamarkaði. Hún var skipuð í rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið árið 2008 og átti sæti í kerfisáhætturáði Danmerkur 2013-2016. Hún var framkvæmdastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands 2011-2016. Sigríður er í fjármálastjórn sjálfseignarstofnunarinnar New Haven Reads sem aðstoðar börn frá efnaminni heimilum við lestrarnám og annað nám. Hún hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum og ritað fjölda fræðigreina. Hún starfar nú við rannsóknir og kennslu við Yale-háskóla í Bandaríkjunum. Sigríður var kjörin í bankaráð í mars 2017 og er formaður Endurskoðunarnefndar.Þorvaldur Jacobsen

Þorvaldur Jacobsen er framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets. Hann lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1987 og prófi í tölvunarfræði frá sama skóla árið 1988. Þá lauk hann einnig meistaragráðu í rafmagnsverkfræði frá Texas-háskóla í Austin árið 1990. Þorvaldur starfaði hjá Opnum kerfum sem sölustjóri á árunum 1990-1996 og sem sölu- og markaðsstjóri Teymis 1996-1999. Hann tók við starfi framkvæmdastjóra Vísis.is ehf. árið 1999 og stýrði því félagi til ársins 2001. Þorvaldur starfaði um langt árabil hjá Nýherjasamstæðunni, fyrst sem framkvæmdastjóri samskiptalausna 2001-2005 og síðar framkvæmdastjóri kjarnalausna 2005-2008. Þá gegndi hann starfi forstjóra Dansupport A/S (dótturfélags Nýherja í Danmörku) um hálfs árs skeið 2007-2008, var framkvæmdastjóri hjá Skyggni 2009-2011, framkvæmdastjóri UAB Baltic IT Services 2010-2012 (dótturfélags Nýherja í Litháen), og loks framkvæmdastjóri rekstrarlausna hjá Nýherja 2011-2012. Þorvaldur var framkvæmdastjóri þróunarsviðs VÍS á árunum 2012-2017 og starfaði hjá Valcon Consulting A/S á sviði rekstrarráðgjafar og breytingastjórnunar 2017-2019. Hann situr í stjórn Sensa ehf., sem er dótturfélag Símans, en áður hefur hann setið í stjórnum ýmissa félaga, auk félagasamtaka á sínu starfssviði. Þorvaldur var kjörinn varamaður í bankaráð í mars 2018 og aðalmaður í apríl 2019.Varamenn

Guðrún Ó. Blöndal

Guðrún Ó. Blöndal lauk cand.oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1990. Guðrún starfaði hjá Kaupþingi á árunum 1984-2002, fyrst á sviði eignastýringar, en síðar sem markaðsstjóri, starfsmannastjóri og forstöðumaður vörsludeildar til ársins 2002. Hún var framkvæmdastjóri Arion verðbréfavörslu, dótturfélags Kaupþings, frá stofnun árið 2002 þar til það sameinaðist Arion banka árið 2012. Á árunum 2012-2013 átti hún sæti í stjórnum Framtakssjóðs Íslands slhf., Regins hf., Varðar trygginga hf., Varðar líftryggingar hf. og Mílu ehf. Guðrún var framkvæmdastjóri Nasdaq verðbréfamiðstöðvar hf. frá árinu 2013 til 2018. Guðrún var kjörin varamaður í bankaráð í mars 2018.Sigurður Jón Björnsson

Sigurður Jón lauk cand.oecon. prófi af reikningshalds- og fjármálasviði frá Háskóla Íslands árið 1994 og prófi í verðbréfaviðskiptum árið 2009. Að námi loknu starfaði hann sem aðstoðarsölustjóri Íslensk Ameríska hf. 1995-1997. Þá gegndi hann störfum forstöðumanns fjármálasviðs, staðgengils framkvæmdastjóra og sérfræðings á sviði fjárfestinga hjá Framtaki fjárfestingarbanka hf. 1997- 2003. Hann starfaði sem forstöðumaður hagdeildar Air Atlanta 2003-2006 og var fjármálastjóri og staðgengill framkvæmdastjóra fjármálasviðs Norðuráls 2006-2007. Hann var ráðinn ráðgjafi í fyrirtækjaráðgjöf hjá Capacent árið 2007 og varð síðar eigandi hjá verðbréfafyrirtækinu Capacent fjárfestingarráðgjöf, síðar Centra fyrirtækjaráðgjöf hf. Samhliða ráðgjafastörfum sinnti Sigurður hlutverki regluvarðar verðbréfafyrirtækisins. Hann var framkvæmdastjóri fjármála hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2011-2017 og bar m.a. ábyrgð á áhættustýringu sjóðsins árin 2011-2015. Sigurður var stjórnarformaður tæknifyrirtækisins Betware á Íslandi frá stofnun félagsins árið 1998 allt til sölu þess til erlendra aðila árið 2014. Hann hefur einnig átt sæti í stjórnum félaganna Stoða hf., Íslandsflugs hf., Landsafls hf., IMSI Inc. og SPC Holding AS. Sigurður var kjörinn varamaður í bankaráð í apríl 2019.Framkvæmdastjórn

Svið bankans eru sex: Einstaklingssvið, Fyrirtækjasvið, Markaðir, Áhættustýring, Fjármál og Upplýsingatækni. Bankastjóri og framkvæmdastjórar sviðanna skipa framkvæmdastjórn Landsbankans.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Bankastjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri bankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum, samþykktum bankans eða ákvörðunum bankaráðs.

Lilja Björk er véla- og iðnaðarverkfræðingur frá Háskóla Íslands með meistarapróf í fjármálaverkfræði frá Michigan-háskóla í Ann Arbor í Bandaríkjunum. Á árunum 2008 til 2016 stýrði hún starfsemi, eignaumsýslu og endurheimt eigna gamla Landsbanka Íslands, LBI ehf., í London. Á árunum 2005 til 2008 var hún sérfræðingur og síðar framkvæmdastjóri hjá Landsbanka Íslands hf. í London og bar m.a. ábyrgð á daglegum rekstri og uppbyggingu stoðdeilda.Áður vann Lilja Björk hjá ráðgjafarfyrirtækinu Marsh & McLennan og vann m.a. verkefni fyrir Ford-bílaframleiðandann, sem sérfræðingur í gerð áætlana og áhættulíkana fyrir vátryggingarsvið og fjárstýringu.

Lilja Björk tók við starfi bankastjóra Landsbankans árið 2017.

Upplýsingatækni

Upplýsingatæknisvið ber ábyrgð á rekstri, öryggi og framþróun stafrænna innviða Landsbankans.

Fyrirtæki

Meginhlutverk Fyrirtækjasviðs snýr að þjónustu við fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir. Fyrirtækjamiðstöð Landsbankans heyrir einnig undir sviðið.

Arinbjörn Ólafsson er framkvæmdastjóri Upplýsingatækni.

Arinbjörn lauk MS-prófi í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og doktorsprófi í sömu grein frá Háskólanum í Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum árið 2006.

Hann hóf störf á verðbréfasviði Landsbankans árið 2006. Árin 2009-2015 vann hann að fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja og stýrði endurútreikningi gengistryggðra lána. Arinbjörn var forstöðumaður Upplýsingatæknideildar hjá Landsbankanum frá 2015 til 2017 þegar hann tók við starfi framkvæmdastjóra Upplýsingatækni.

Árni Þór Þorbjörnsson er framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs.

Árni er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með diplóma í rekstrar- og viðskiptafræði. Hann hlaut löggildingu í Corporate Finance frá Securities & Investment Institute í London árið 2005.

Árni starfaði í Landsbanka Íslands hf. frá árinu 1996. Á fyrstu árunum annaðist hann almenn lögfræðistörf, ráðgjöf og málflutning. Árni var yfirlögfræðingur Fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands hf. til ársins 2008, en við stofnun Landsbankans hf. tók Árni við sem framkvæmdastjóri Fyrirtækjasviðs.

Einstaklingar

Meginhlutverk Einstaklingssviðs er að annast þjónustu við einstaklinga. Fyrirtæki á landsbyggðinni fá auk þess alla almenna bankaþjónustu í útibúum um land allt.

Helgi Teitur Helgason er framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs.

Helgi lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1998.

Sama ár hóf hann störf hjá Landsbankanum sem lögfræðingur og síðar lögmaður. Helgi leiddi opnun skrifstofu Intrum og Lögheimtunnar á Akureyri vorið 2001 og starfaði þar sem svæðisstjóri og lögmaður á Norðurlandi til vorsins 2004 þegar hann tók við starfi útibússtjóra Landsbankans á Akureyri. Hann hefur verið framkvæmdastjóri Einstaklingssviðs frá árinu 2010.

Markaðir

Meginhlutverk Markaða er að annast þjónustu er snýr að sölu og miðlun verðbréfa, viðskiptavakt, fyrirtækjaráðgjöf og eignastýringu.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir er framkvæmdastjóri Markaða.

Hrefna er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og hefur lokið löggildingarprófi í verðbréfaviðskiptum.

Hrefna starfaði sem sjóðstjóri hjá Arev verðbréfafyrirtæki frá árinu 2007 þar til hún gekk til liðs við Landsbankann. Þá starfaði Hrefna sem forstöðumaður skráningarsviðs og sérfræðingur á því sviði hjá Kauphöll Íslands frá 1998-2006. Áður gegndi hún starfi forstöðumanns einstaklingsþjónustu hjá Fjárvangi og var starfsmaður á peningamálasviði Seðlabanka Íslands. Hrefna tók við starfi framkvæmdastjóra Eignastýringarsviðs Landsbankans, síðar Markaða Landsbankans, árið 2010.


Fjármál

Fjármál er blandað tekju- og stoðsvið, en á sviðinu eru sjö deildir: Fjárstýring, Fjárhagsdeild, Hagfræðideild, Lánaumsjón, Lögfræðideild, Rekstur og Viðskiptaumsjón.

Hreiðar Bjarnason er framkvæmdastjóri Fjármála.

Hreiðar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með MS-gráðu í fjármálafræðum frá London Business School og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Hreiðar hóf störf í Landsbanka Íslands hf. árið 1998, fyrst sem sérfræðingur í Markaðsviðskiptum og síðar í Fjárstýringu. Hreiðar tók við sem framkvæmdastjóri Markaða og fjárstýringar Landsbankans hf. snemma árs 2010, en tók við stöðu sem framkvæmdastjóri Fjármála í ágúst 2012 og er auk þess staðgengill bankastjóra. Áhættustýring

Áhættustýring ber ábyrgð á greiningu á áhættu og eftirliti með henni. Áhættustýring gegnir enn fremur veigamiklu hlutverki í útlánaferli bankans.

 

Perla Ösp Ásgeirsdóttir er framkvæmdastjóri Áhættustýringar.

Perla er með MS-gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík. Perla hóf störf hjá Landsbankanum sem forstöðumaður Áhættustýringar 2010 og varð framkvæmdastjóri Áhættustýringar síðar sama ár.

Perla starfaði hjá Seðlabanka Íslands á árabilinu 2005-2010. Perla sinnti m.a. eftirliti með fjármálafyrirtækjum og mörkuðum hjá Seðlabanka Íslands og annaðist gerð áhættulíkana fyrir íslenskan fjármálamarkað. Perla starfaði fyrir rannsóknarnefnd Alþingis árið 2009.

Innri endurskoðun

Innri endurskoðun leggur mat á stjórnarhætti, áhættustjórnun og eftirlitsaðferðir Landsbankans. Athugunum Innri endurskoðunar er, auk annars, ætlað að veita hæfilega vissu um að bankinn nái markmiðum sínum varðandi skilvirkni, varðveislu eigna, áreiðanleika upplýsinga og að hann fylgi lögum og reglum.

Kristín Baldursdóttir er innri endurskoðandi Landsbankans.

Kristín er hagfræðingur frá Háskóla Íslands, með MPM-gráðu frá sama háskóla, hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og er með alþjóðlega vottun sem innri endurskoðandi.

Kristín hóf störf sem innri endurskoðandi hjá Landsbankanum hf. árið 2009. Áður starfaði Kristín hjá Íslandsbanka um 18 ára skeið sem viðskiptastjóri, verkefnastjóri og forstöðumaður rekstrardeildar bankans.


Regluvarsla

Regluvarsla hefur það hlutverk að veita starfsfólki Landsbankans fræðslu og ráðgjöf vegna laga um verðbréfaviðskipti, hafa eftirlit með framkvæmd laganna og takmarka eins og kostur er hlítingaráhættu bankans. Þá hefur Regluvarsla einnig það hlutverk að annast varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Þórður Örlygsson er regluvörður Landsbankans.

Þórður er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands. Hann hóf störf hjá Landsbankanum árið 2004, fyrst sem sérfræðingur í skuldaúrlausnum en tók við sem regluvörður árið 2005.

Áður starfaði Þórður sem sérfræðingur í lögfræðiráðgjöf hjá Kaupþingi banka hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.

Skipurit Landsbankans