Ávarp formanns bankaráðs og bankastjóra


„Sú áhersla sem Landsbankinn hefur lagt á góða þjónustu og traustan rekstur hefur leitt til aukinnar ánægju hjá viðskiptavinum og vaxandi trausts til bankans.“

- Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs


„Með stafrænni þjónustu gerum við bankaþjónustu aðgengilegri og auðveldari. Með persónulegri þjónustu tryggjum við að viðskiptavinir fái trausta fjármálaráðgjöf og aðstoð þegar á reynir.“

- Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

 

Fara neðar

Ávarp formanns bankaráðs Landsbankans

Óhætt er að segja að vatnaskil hafi orðið í íslensku efnahagslífi. Eftir samfelldan hagvöxt frá árinu 2011 mældist lítilsháttar samdráttur á árinu 2019. Fall WOW air hafði veruleg áhrif og átti hvað mestan þátt í að ferðamönnum fækkaði um ríflega 300.000, eða um meira en 14%. Atvinnuleysi jókst umtalsvert frá fyrra ári og þrátt fyrir lækkun vaxta og stöðugt verðlag voru ytri aðstæður fyrirtækja í flestum atvinnugreinum afar krefjandi. Óróleiki á erlendum mörkuðum setti sömuleiðis svip sinn á árið.

Traustur rekstur

Við þessar aðstæður telst afkoma og arðsemi Landsbankans á árinu 2019 hafa verið góð. Hagnaður bankans á árinu 2019 nam 18,2 milljörðum króna. Arðsemi eiginfjár eftir skatta var 7,5% en að teknu tilliti til áhrifa af bankaskatti var arðsemi eiginfjár 9,2%. Langtímamarkmið bankans er að 10% arðsemi sé af eigin fé, án bankaskatts. Mikil áhersla er lögð á að halda rekstrarkostnaði í skefjum og er kostnaðarhlutfall bankans með því lægsta sem þekkist á evrópskum bankamarkaði. Í lok árs 2019 var kostnaðarhlutfall bankans 42,6% og lækkar frá fyrra ári. Laun og tengd gjöld lækka um 131 milljónir króna á milli ára en annar rekstrarkostnaður hækkaði um 186 milljónir króna. Efnahagur Landsbankans er traustur en eigið fé bankans í árslok 2019 var 248 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið var 25,8%, sem telst hátt í alþjóðlegum samanburði.

Uppgjör bankans er sem fyrr til marks um traustan og stöðugan rekstur. Uppgjörið endurspeglar engu að síður þær breytingar sem orðið hafa í efnahagslífinu, m.a. í því að í fyrsta skipti frá árinu 2008 voru virðisbreytingar útlána neikvæðar. Þá setti lágt vaxtastig þrýsting á vaxtamun bankans og mun gera það áfram. Á sama tíma draga háar eiginfjárkröfur og sérstök skattlagning á stærri fjármálafyrirtæki úr arðseminni. Lækkun bankaskatts um áramót, úr 0,376% í 0,318%, var jákvætt skref en hafa verður í huga að skatturinn átti alltaf að vera tímabundinn og skattlagningin hefur ekki að fullu skilað sér í verðlagningu. Landsbankinn býður samkeppnishæf kjör á bankamarkaði og mun kappkosta að gera það áfram.

Margar áskoranir eru framundan í starfsemi fjármálafyrirtækja. Viðskiptavinir gera kröfu um skilvirkari þjónustu og betri kjör á meðan samkeppni frá innlendum sem erlendum aðilum eykst og kostnaður við eftirlit og í upplýsingatækni hækkar. Landsbankinn líkt og önnur fyrirtæki þarf að hagræða í rekstri sínum og skila eigendum ásættanlegri ávöxtun á eigið fé. Hlutverk Landsbankans er fyrst og fremst að styðja við íslensk heimili og atvinnulíf um land allt og það mun bankinn gera áfram. Stjórnvöld geta að sama skapi lagt sín lóð á vogarskálarnar með því að lækka skatta enn frekar en boðað hefur verið.

Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs

Frá árinu 2013 til 2019 greiddi Landsbankinn alls um 142 milljarða króna í arð en arðgreiðslurnar hafa að stærstum hluta runnið í ríkissjóð. Stefna Landsbankans er að greiða meirihluta af hagnaði út sem arð til hluthafa en til viðbótar skal stefnt að sérstökum arðgreiðslum til að auka hagkvæmni í fjármagnsskipan bankans. Á aðalfundi bankans 27. mars nk. mun bankaráð leggja til að bankinn greiði 9,5 milljarða króna í arð vegna afkomu ársins 2019.

Arðgreiðslur Landsbankans hf. (m. kr.)
*Bankaráð mun leggja til við aðalfund Landsbankans 2020 að greiddur verði 9,5 ma.kr. arður til hluthafa vegna ársins 2019.

Húsnæði Landsbankans

Landsbankinn hefur um árabil stefnt að því að flytja miðlæga starfsemi í ný húsakynni enda er núverandi húsakostur bankans í miðborg Reykjavíkur óhentugur og óhagkvæmur. Í þessum tilgangi keypti bankinn lóð við Austurhöfn í Reykjavík árið 2014. Í maí 2017 tók bankaráð ákvörðun um að láta byggja nýtt hús fyrir bankann á lóðinni. Það var gert á grundvelli frumáætlunar sem miðaði við að kostnaður við að byggja skrifstofu- og þjónustuhúsnæði á þessum stað yrði um 9 milljarðar króna, að lóðarverði meðtöldu. Að teknu tilliti til þróunar vísitölu byggingarkostnaðar frá því að ákvörðunin var tekin jafngildir sú fjárhæð nú um 10 milljörðum króna.

Þegar búið var að leggja mat á tillögur sem bárust um hönnun hússins var ljóst að byggingin yrði kostnaðarsamari en upphaflega var gert ráð fyrir. Við bættist kostnaður vegna ákvörðunar um að húsið yrði umhverfisvottað samkvæmt BREEAM-umhverfisstaðlinum. Samkvæmt þeirri kostnaðaráætlun sem bankaráð hefur samþykkt er nú reiknað með að heildarkostnaður við bygginguna verði 11,8 milljarðar króna. Þrátt fyrir að kostnaður verði því um 1,8 milljörðum króna hærri en upphaflega var gert ráð fyrir er ljóst að flutningur í húsið mun hafa í för með sér nauðsynlega hagræðingu. Gert er ráð fyrir að árlegur sparnaður bankans vegna flutnings nemi um 500 milljónum króna. Bankinn hyggst selja eða leigja frá sér um 40% hússins og er kostnaður við þann hluta sem bankinn mun nýta áætlaður um 7,5 milljarðar króna.

Varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Landsbankinn leggur mikla áherslu á varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta eftirlit hefur verið eflt með margvíslegum hætti á undanförnum árum. Ný tölvukerfi hafa verið tekin í notkun sem bæta mjög sjálfvirka vöktun. Starfsfólki sem starfar við eftirlitið hefur verið fjölgað og aukin áhersla lögð á þessar varnir í öllu starfi bankans. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands metur reglulega varnir bankans gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og vinna bankans miðar ávallt að því að uppfylla kröfur stjórnvalda að öllu leyti.

Það voru sannarlega vonbrigði þegar FATF, alþjóðlegur fjármálaaðgerðahópur ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, ákvað í október 2019 að setja Ísland á svokallaðan gráan lista yfir ríki sem eru samvinnufús en aðgerðaáætlun um endurbætur er í farvegi. Athugasemdir FATF sneru ekki að íslenskum fjármálafyrirtækjum heldur að stjórnvöldum. Þau hafa útskýrt sína hlið á málinu og upplýst að vinna við úrbætur miði að því að Ísland verði tekið af þessum lista innan tíðar.

Skipting eignarhalds á Landsbankanum hf.

Nafn Eignarhlutur
Ríkissjóður Íslands 98,20%
Landsbankinn hf. 1,56%
Aðrir hluthafar* 0,24%
Fjöldi hluthafa 883
   
*Árið 2013 fengu um 1.400 starfsmenn og fyrrum starfsmenn afhenta hluti í Landsbankanum í samræmi við samning um uppgjör LBI hf. og íslenska ríkisins. Við samruna Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands eignuðust fyrrum stofnfjárhafar í sjóðunum hluti í bankanum.

Jöfn laun og jöfn starfstækifæri

Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á launajafnrétti og jöfn starfstækifæri. Lögbundin jafnlaunavottun Landsbankans tók formlega gildi í mars 2019. Launamunur kynjanna er mældur mánaðarlega og hefur mælst á bilinu 1,3-1,8% frá því að kerfið var innleitt. Bankinn tekur jafnréttismál alvarlega og vinnur að framgangi þeirra með ýmsum hætti. Frá árinu 2018 hefur bankinn t.a.m. tekið þátt í Jafnréttisvísi Capacent. Á árinu 2019 var innleidd viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi sem var ítarlega kynnt fyrir starfsfólki.

Fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á samfélagsábyrgð og viðskiptavinir fylgjast vel með frammistöðu fyrirtækja á þessu sviði. Hjá Landsbankanum er litið svo á að samfélagsábyrgð sé lykilþáttur í starfsemi bankans. Það er m.a. gert með því að innleiða metnaðarfulla stefnu um ábyrgar fjárfestingar, með því að starfsfólk aflar sér sérþekkingar á útgáfu grænna skuldabréfa og með því að fylgja alþjóðlegum viðmiðum um ábyrga bankastarfsemi.

Umhverfið sem Landsbankinn starfar í er síbreytilegt. Reglur og kröfur yfirvalda breytast og ný tækni gerir samkeppni á fjármálamarkaði fjölbreyttari og harðari. Samkeppnin kemur ekki aðeins frá innlendum keppinautum heldur einnig frá erlendum bönkum og mögulega frá erlendum tæknirisum.

Stefnumótun og framtíðarsýn

Fyrir rúmlega fimm árum setti Landsbankinn sér stefnu til ársins 2020. Sú stefna var uppfærð árið 2017 og aukin áhersla lögð á stafrænar lausnir og þjónustu við viðskiptavini. Síðan hafa fjölmargar nýjungar litið dagsins ljós auk þess sem meiri áhersla hefur verið lögð á persónulega þjónustu og ráðgjöf. Bankinn hefur sömuleiðis lagt mikla áherslu á að efla þjónustu við fyrirtæki um allt land. Sú áhersla sem Landsbankinn hefur lagt á góða þjónustu og traustan rekstur hefur leitt til aukinnar ánægju hjá viðskiptavinum og vaxandi trausts til bankans. Í lok janúar 2020 var greint frá því að Landsbankinn hefði mælst efstur í Íslensku ánægjuvoginni hjá viðskiptavinum í bankaþjónustu. Bankinn er ákaflega stoltur af þessari viðurkenningu og þakkar traustið sem honum er sýnt. Okkar metnaðarfulla starfsfólk á hrós skilið og við munum áfram leggja okkur fram um að veita bestu þjónustu á íslenskum bankamarkaði.

Stefnan sem mörkuð var til ársins 2020 hefur gefist vel en nú er tímabært að marka nýja stefnu til framtíðar. Vinna við nýja stefnumörkum hófst í vetur og verður ný stefna kynnt á haustmánuðum. Það eru því krefjandi og spennandi tímar framundan.

Á aðalfundi bankans 4. apríl 2019 voru Berglind Svavarsdóttir, Einar Þór Bjarnason, Helga Björk Eiríksdóttir, Hersir Sigurgeirsson og Sigríður Benediktsdóttir endurkjörin í bankaráð Landsbankans. Guðbrandur Sigurðsson og Þorvaldur Jacobsen voru kjörnir aðalmenn í bankaráð og Guðrún Blöndal og Sigurður Jón Björnsson varamenn.

Starfsfólk Landsbankans er samhentur og öflugur hópur sem getur verið stolt af þeim árangri sem bankinn náði á árinu 2019. Fyrir hönd bankaráðs Landsbankans þakka ég starfsfólki fyrir gott og ánægjulegt samstarf á liðnu ári. Ég þakka jafnframt viðskiptavinum, hluthöfum og eftirlitsaðilum góð samskipti á liðnu ári.

Ávarp bankastjóra Landsbankans

Landsbankinn hefur verið í sókn sem endurspeglast í aukinni ánægju viðskiptavina og sterkri markaðsstöðu ásamt traustum og stöðugum rekstri. Hagnaður ársins nam um 18,2 milljörðum króna eftir skatta sem er um 1 milljarði króna minni hagnaður en árið 2018. Stærsta breytingin milli ára skýrist af framlagi í afskriftarsjóð vegna neikvæðra virðisbreytinga útlána. Um er að ræða talsverðan viðsnúning frá fyrra ári þegar virðisbreytingar voru jákvæðar, að mestu vegna þess að þá var bakfærð varúðarfærsla vegna gengislána. Framlög í afskriftarsjóð til að koma til móts við möguleg útlánatöp eru eðlilegur þáttur í rekstri banka en mat á fjárhæð framlaganna tekur ekki einvörðungu mið af gæðum eigna heldur einnig af efnahagsástandi og -horfum.

Aukin hagkvæmni í rekstri og stöðugar aðhaldsaðgerðir eiga stærstan þátt í að rekstrarkostnaður stóð nánast í stað á milli ára, þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir. Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði töluvert á milli ára og var 42,6%. Landsbankinn var raunar með 11. lægsta kostnaðarhlutfall banka í Evrópu samkvæmt samanburði sem Evrópska bankaeftirlitsstofnunin birti í vetur. Arðsemi eiginfjár var 7,5% en 9,2% ef litið er framhjá áhrifum af bankaskatti. Þegar alþjóðlega fjármálatímaritið Euromoney útnefndi Landsbankann sem besta banka á Íslandi árið 2019 var einmitt bent á að fjárhagsleg afkoma bankans undirstrikaði afburða stöðu hans á Íslandi, einkum hvað varðar skilvirkni og arðsemi, auk þess sem heilbrigður vöxtur hafi orðið í lánum og innstæðum.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri

Mikilvægasti þátturinn í starfsemi Landsbankans er sambandið við viðskiptavini. Það er einkar góð byrjun á árinu 2020 að bankinn var í efsta sæti í Íslensku ánægjuvoginni sem byggir á könnun sem gerð var seinni hluta árs 2019 og mælir heildaránægju viðskiptavina. Við leggjum í senn mikla áherslu á persónulegt samband við viðskiptavini okkar og á framþróun og útgáfu stafrænna lausna. Með stafrænni þjónustu gerum við bankaþjónustu aðgengilegri og auðveldari. Með persónulegri þjónustu tryggjum við að viðskiptavinir fái trausta fjármálaráðgjöf og aðstoð þegar á reynir.

Starfsfólk bankans hefur nýtt vel þau tækifæri sem hafa gefist til að efla viðskiptasambönd og á árinu 2019 buðum við fjölmarga nýja viðskiptavini velkomna. Þetta á jafnt við um fyrirtæki sem einstaklinga. Fjögur af hverjum tíu fyrirtækjum með yfir 500 milljóna króna ársveltu kjósa að eiga viðskipti við Landsbankann og ánægja fyrirtækja með þjónustuna hefur ekki verið meiri frá árinu 2008. Þá erum við stolt af því að hafa stutt yfir eitt þúsund fjölskyldur og einstaklinga sem voru að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum en bankinn var með 38% hlutdeild í íbúðalánum til fyrstu kaupa á árinu. Landsbankinn veitir samkeppnishæf kjör þar sem því verður við komið en það er öllum ljóst að erfitt er að keppa um kjör við aðila sem búa við lægri álögur en bankinn. Skattheimta á stærri fjármálafyrirtæki, sem jafnframt er mun meiri en í nágrannalöndunum, skekkir samkeppnisstöðuna verulega og kemur niður á kjörum til neytenda. Bankinn greiðir vegna ársins 2019 um 4,2 milljarða króna vegna skatts á heildarskuldir fjármálafyrirtækja, um 1,1 milljarð króna í tryggingasjóð innstæðueigenda, auk um 709 milljónir króna vegna sérstaks fjársýsluskatts sem leggst eingöngu á laun hjá fjármála- og verðbréfafyrirtækjum, auk tryggingafélaga. Það er jákvæð þróun að bæði bankaskatturinn og gjald í tryggingasjóð innstæðueigenda hafa lækkað. Það þyrfti þó að ganga lengra, m.a. með því að bankaskatturinn, sem alltaf átti að vera tímabundin skattheimta, verði afnuminn að fullu og að ekki sé innheimt í tryggingasjóð innstæðueigenda umfram þörf. Í Landsbankanum verður áfram unnið að því að lækka rekstrarkostnað en stærstu tækifærin til þess liggja í áframhaldandi stöðlun og einföldun á sameiginlegum innviðum fjármálakerfisins.

Árið 2019 einkenndist af lækkandi vöxtum á Íslandi ásamt umtalsverðri óvissu í efnahagsmálum sem minnkaði þó eftir því sem leið á árið. Vaxtamunur bankans lækkaði lítillega milli ára, eða um 0,3 prósentustig, sem er meðal annars afleiðing af lækkun stýrivaxta og vaxtalækkana bankans í kjölfarið. Bankinn leggur áfram áherslu á að verðleggja útlán í samræmi við áhættu og arðsemiskröfu og að verðleggja innlán með tilliti til markaðsaðstæðna. Áhætta í útlánasafni bankans heldur áfram að lækka. Sjávarútvegur er stærsta atvinnugreinin í útlánum bankans, en lán til einstaklinga vegna húsnæðiskaupa eru á hinn bóginn stærsta útlánasafn bankans. 

Landsbankinn hélt árið 2019 áfram vel heppnaðri útgáfu víkjandi skuldabréfa og sértryggðra skuldabréfa. Á árinu 2020 mun Landsbankinn áfram sækja fjármagn á innlenda sem erlenda fjármagnsmarkaði, einkum til endurfjármögnunar, og mun við það áfram njóta sterkrar stöðu sinnar hér á landi.

Fjárfestar og viðskiptavinir horfa í auknum mæli til samfélagsábyrgðar fyrirtækja og því er mikilvægt fyrir bankann að gera grein fyrir stefnu og árangri á því sviði. Landsbankinn hefur lagt mikla áherslu á þennan málaflokk og á árinu 2019 fékk bankinn mjög góða einkunn frá alþjóðlega mats- og greiningarfyrirtækinu Sustainalytics á mati á UFS-þáttum, þ.e. á umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Var bankinn í 6. sæti af 376 bönkum sem Sustainalytics hafði mælt í Evrópu.

Töluvert hefur verið rætt um að sótt sé að bönkum úr mörgum áttum og að tæknibreytingar muni leiða til umbyltingar á fjármálamarkaði. Á sama tíma hefur staða Landsbankans sjaldan verið jafn góð. Í umróti myndast mikil tækifæri og Landsbankinn er vel í stakk búinn til að mæta auknum kröfum, aukinni samkeppni og nýjum ógnum líkt og netglæpum. Við erum meðvituð um þær áskoranir sem bankinn stendur frammi fyrir en vinnum markvisst að því að finna og skapa ný tækifæri fyrir bankann og takmarka um leið áhrif breytinganna á reksturinn.

Góður árangur bankans er fyrst og fremst öflugu og metnaðarfullu starfsfólki að þakka, sem og okkar traustu viðskiptavinum um allt land. Sem fyrr er mikill hugur í Landsbankafólki sem vinnur nú ásamt stjórn bankans að því að móta nýja framtíðarstefnu fyrir bankann sem kynnt verður á haustmánuðum. Ný stefna bankans mun snúa að því hvernig við treystum samband okkar við viðskiptavini enn frekar og höldum áfram að skila góðri og samkeppnishæfri rekstrarniðurstöðu.