Samfélagsábyrgð


Landsbankinn var á árinu 2019 í 6. sæti af 376 bönkum í UFS-áhættumati Sustainalytics, byggði upp sérfræðiþekkingu á grænum skuldabréfum, hóf þátttöku í þróun loftslagsmælis fyrir fjármálafyrirtæki og skrifaði undir viðmið um ábyrga bankaþjónustu.

Fara neðar

Landsbankinn tekur samfélagsábyrgð alvarlega og leggur áherslu á að samþætta samfélagsstefnu sína við kjarnastarfsemina.

Framtíðarsýn í samfélagsábyrgð

Samfélagsstefna Landsbankans miðar að því að stuðla að sjálfbærni í íslensku samfélagi, vera hreyfiafl og starfa eftir ábyrgum stjórnarháttum við rekstur bankans.

Við ætlum að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensk atvinnulífs og samfélags með það að markmiði að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.

Landsbankinn fylgir þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem og nýjum viðmiðum UNEP-FI um ábyrga bankastarfsemi sem ætlað er að tengja bankastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Samfélagsábyrgð: Umhverfi, samfélag, hagkerfi

Skrifað undir ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi

Í september 2019 skrifaði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, undir ný viðmið um ábyrga bankastarfsemi í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Landsbankinn var þar í hópi 130 banka víðsvegar að úr heiminum en viðmiðunum er ætlað að tengja fjármálastarfsemi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og Parísarsáttmálann. Viðmiðin voru formlega kynnt við upphaf allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna en þetta er viðamesta samstarfsverkefni alþjóðlega bankakerfisins og Sameinuðu þjóðanna hingað til. Viðmiðin voru þróuð af 30 alþjóðlegum bönkum í samvinnu við UNEP FI (United Nations Environment Programme - Finance Initiative) og byggja á aðgerðaramma um innleiðingu og ábyrgðarskyldu. Með undirskriftinni skuldbinda bankarnir sig til að beita sér þar sem áhrifavald þeirra er mest, þ.e. í gegnum kjarnastarfsemi sína, og vinna markvisst að því að auka jákvæð áhrif og draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á samfélagið og náttúruna og greina frá því á gagnsæjan hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem settar eru fram alþjóðlegar leiðbeiningar um samþættingu sjálfbærniviðmiða á öllum stigum bankastarfsemi.


Heimsmarkmiðin hluti af samfélagsstefnu

Landsbankinn ætlar að fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti í starfsemi sinni. Lögð verður áhersla á þrjú af markmiðunum: markmið 5 um jafnrétti kynjanna, markmið 8 um góða atvinnu og hagvöxt og markmið 12 um ábyrga neyslu og framleiðslu. Markmiðin sem bankinn hefur valið tengjast öll starfsemi bankans og því getur vinna bankans að þeim hámarkað jákvæð áhrif hans á umhverfið. 

Landsbankinn í 6. sæti af 376 bönkum samkvæmt Sustainalytics

Í október 2019 fékk Landsbankinn UFS-áhættumat frá Sustainalytics sem snýr að samfélagsábyrgð bankans, nánar tiltekið umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum, UFS-þáttum (e. environmental, social, governance (ESG)). Landsbankinn fékk mjög góða einkunn og er bankinn í 6. sæti af 376 bönkum sem Sustainalytics hefur mælt í Evrópu. Landsbankinn fékk 17,5 stig á 100 stiga skala sem þýðir að lítil áhætta er talin vera á að bankinn verði fyrir fjárhagslegum áhrifum vegna UFS-þátta.

Krafan um úttekt ytri aðila á UFS-þáttum fyrirtækja hefur aukist undanfarin ár og vilja ýmsir fjárfestar að það liggi fyrir óháð mat þriðja aðila á samfélagsábyrgð bankans. UFS-þættir eru viðmið sem snúa m.a. að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og hvernig fyrirtæki kemur fram við starfsfólk, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í.  • Landsbankinn hefur ákveðið að fylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti í sinni starfsemi.

Heimsmarkmiðin hluti af samfélagsstefnu

Ítarleg samfélagsskýrsla

Samfélagsskýrsla Landsbankans er gefin út á hverju ári og er skrifuð samkvæmt viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI). Skýrslan verður birt á vef bankans eigi síðar en 27. mars. Skýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact.

Skýrslan inniheldur samanburðarhæfar upplýsingar frá ári til árs. Hún er ítarleg og hefur hlotið viðurkenningu sem besta samfélagsskýrslan en viðurkenninguna veita Festa, Stjórnvísi og Viðskiptaráð. Fjallað er um þau verkefni sem bankinn vinnur að sem tengjast samfélagsábyrgð og birtar ítarlegar upplýsingar um samfélagsstefnu bankans og samfélagsvísa í rekstri hans. Einnig er reynt að veita innsýn í það sem vel er gert og það sem betur má fara.

Landsbankinn hefur verið aðili að UN Global Compact frá árinu 2006. UN Global Compact er samstarfsverkefni Sameinuðu þjóðanna og atvinnulífsins til að fylgja eftir markmiðum SÞ og snýst um að hvetja fyrirtæki til að sýna samfélagsábyrgð í verki. Landsbankinn var eitt þeirra fyrirtækja sem stóðu að stofnun Festu, miðstöðvar um samfélagsábyrgð, árið 2011 og IcelandSIF, samtaka um ábyrgar fjárfestingar, árið 2017.

Í Landsbankanum hefur undanfarin ár markvisst verið unnið að innleiðingu á stefnu um ábyrgar fjárfestingar en tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir.

Áfram áhersla á ábyrgar fjárfestingar

Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar tekur bæði mið af því vinnulagi sem hefur mótast á undanförnum árum og einnig þeim áskorunum sem framundan eru. Næstu skref bankans í þessum efnum verður að bæta umhverfis- og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS-þáttum) með skipulögðum hætti inn í ferli fjárfestingarákvarðana, hvort sem um óskráð eða skráð félög eða skuldabréf er að ræða.

Í júlí 2019 skrifuðu Reitun ehf., Landsbankinn og Landsbréf undir þjónustusamning um kaup Landsbankans og Landsbréfa á framkvæmd UFS mats (e. ESG rating) á útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna. Markmiðið með samningnum er að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig og halda þannig áfram þeirri vegferð sem bankinn og dótturfélag hans, Landsbréf, hafa markað sér undanfarin ár.

Landsbankinn fékk aðild að United Nations Principles for Responsible Investment (UN PRI) í byrjun árs 2013. Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum UN PRI. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til viðmiða reglnanna í framvinduskýrslu og skilar bankinn slíkri skýrslu til samtakanna árlega. Samtökin gera kröfu um skýra framvindu aðildarfélaganna.

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans hefur undanfarin misseri aflað upplýsinga á skipulagðan máta um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista steig Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin voru gerð aðgengileg fjárfestum á heimasíðu Hagfræðideildar Landsbankans árið 2017. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur deildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni, í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.  • Alþjóðlega eignastýringarfyrirtækið LGT Capital Partners, samstarfsaðili Landsbankans, er leiðandi í ábyrgum fjárfestingum á alþjóðavísu.

Fyrirtæki metin út frá samfélagsábyrgð

Sérþekking á grænum skuldabréfum

Á undanförnum misserum hefur bankinn marvisst byggt upp sérfræðiþekkingu á grænum skuldabréfum. Græn skuldabréf eru einn möguleiki til fjármögnunar á umhverfisvænum verkefnum og hefur áhugi á grænum skuldabréfum aukist jafnt og þétt á undanförnum árum hér á landi samfara stórauknum áhuga erlendis. Vitundarvakning í loftslags- og umhverfismálum og þrýstingur frá almenningi hafa leitt til þess að ríki, sveitarfélög og einkarekin félög láta sig þessi málefni varða í auknum mæli.

Á árinu 2019 unnu Markaðir Landsbankans með Lánasjóði sveitarfélaga að vottun vegna útgáfu grænna skuldabréfa. Tilgangur fyrirhugaðrar skuldabréfaútgáfu er að fjármagna verkefni sveitarfélaga sem stuðla að umhverfisvernd og sporna gegn loftslagsbreytingum.  • Lánasjóður sveitarfélaga hefur fengið vottun á umgjörð félagsins til að gefa út græn skuldabréf.

Græn fjármögnun sveitarfélaga

Landsbankinn vinnur að gerð loftslagsmælis

Árið 2019 gerðist Landsbankinn aðili að alþjóðlega verkefninu PCAF sem miðar að því að búa til loftslagsmæli sem er sérsniðinn að fjármálafyrirtækjum. Loftslagsmælinum er ætlað að gera fjármálafyrirtækjum kleift að mæla og greina frá kolefnislosun í lána- og eignasafni þeirra (scope 3). Verkefnið hófst í Hollandi og hafa PCAF-mælar verið gerðir fyrir fjármálafyrirtæki þar í landi og fyrir banka í Norður-Ameríku. Núna er unnið að því að búa til alþjóðlegan loftslagsmæli til þess að fjármálafyrirtæki um heim allan geti mælt þessa kolefnislosun á vísindalegan og samræmdan hátt. Landsbankinn er í þróunarhópi PCAF fyrir alþjóðlega mælinn en gert er ráð fyrir að þróunin muni taka um þrjú ár.


Umhverfismál í rekstri bankans

Landsbankinn tók þátt í loftslagsverkefni Festu og Reykjavíkurborgar árið 2015 ásamt 102 öðrum fyrirtækjum. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í tengslum við Parísarfundinn um loftslagsbreytingar og felst í því að fyrirtækin skuldbinda sig til að setja sér markmið og aðgerðaáætlun í samfélagsábyrgð til 10 ára. Landsbankinn vinnur nú að því að endurmeta og skerpa markmið sín.

Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu á flokkun sorps í starfsstöðvum Landsbankans. Innleiðingu er lokið í höfuðstöðvum og í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu. Búið er að innleiða flokkun í vinnustöðvum á Suðurnesjum, Suðurlandi og Vesturlandi og á árinu 2019 lauk innleiðingunni á Norðurlandi. Markmiðið er að Landsbankinn verði nær eingöngu með flokkaðan úrgang eftir fjögur ár. Landsbankinn vinnur jafnt og þétt að innleiðingu LED-lýsingar í bankanum en raforkunotkun bankans hefur minnkað til muna undanfarin ár. Ítarlega er fjallað um umhverfismál í Samfélagsskýrslu Landsbankans.

Jafnréttismálin í brennidepli

Í mars 2019 hlaut bankinn lögbundna jafnlaunavottun og hefur unnið samkvæmt vottuðu jafnlaunakerfi síðan. Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnkerfi sem miðar að því að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Landsbankinn hefur lengi lagt þunga áherslu á jafnréttismál en fjallað er um þau í mannauðskafla skýrslunnar.