Mannauður


Á árinu 2019 mældist mikil starfsánægja innan bankans. Jafnréttismálin voru efld enn frekar með Jafnréttisvísi Capacent og lögbundin jafnlaunavottun tók gildi. Fræðslustarfið hefur sjaldan verið viðameira en áhersla er lögð á að bjóða upp á starfsumhverfi sem hvetur starfsfólk til að tileinka sér nýja þekkingu og miðla henni.

Fara neðar

Í Landsbankanum starfar framúrskarandi starfsfólk með fjölbreyttan bakgrunn. Mannauðsstefna bankans leggur áherslu á starfsánægju, gott starfsumhverfi og markvissa starfsþróun. Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á launajafnrétti og jöfn starfstækifæri.

Kynjahlutfall hjá Landsbankanum

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjórn
57%
43%
Forstöðumenn
74%
26%
Útibússtjórar
58%
42%
Millistjórnendur
48%
52%
Sérfræðingar með háskólapróf
56%
44%
Sérfræðingar
37%
63%
Þjónustustjórar
15%
85%
Þjónustufulltrúar og gjaldkerar
8%
92%
Annað starfsfólk
29%
71%

Jafnlaunavottun tekur gildi

Lögbundin jafnlaunavottun Landsbankans tók formlega gildi í mars 2019 og hefur bankinn unnið samkvæmt vottuðu jafnlaunakerfi síðan. Reglulega er reiknaður launamunur innan bankans og á árinu 2019 hefur hann verið á bilinu 1.4-1.8%, þar sem karlar eru hærri en konur. Aðhvarfsgreining desemberlauna 2019 leiðir í ljós að launamunur kynjanna er 1,5%.

Samkvæmt lögum um jafnlaunavottun frá 2017 skal vottunin byggjast á jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Með innleiðingu jafnlaunastaðals hefur Landsbankinn komið sér upp stjórnkerfi sem miðar að því að tryggja að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.


Kynjahlutfall í Landsbankanum - heild

Áhersla á heimsmarkið 5 um jafnrétti kynjanna

Landsbankinn fylgir markvisst þremur heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þar með talið heimsmarkmiði 5 um jafnrétti kynjanna. Áður en bankinn hlaut lögbundna jafnlaunavottun hafði hann í tvígang hlotið gullmerki jafnlaunaúttektar PwC, upphaflega árið 2015 fyrstur banka. Landsbankinn vill tryggja að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf og hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns í framkvæmdastjórn bankans verði aldrei minni en 40%.


Ráðstefna um jafnréttismál á vinnustöðum

Í nóvember 2019 stóð Landsbankinn að ráðstefnu um jafnréttismál á vinnustöðum ásamt Landsvirkjun og Alcoa Fjarðaáli. Ráðstefnan var haldin á Egilsstöðum og var vel sótt. Rætt var um mikilvægi þess að leggja áherslu á jafnréttismál í atvinnulífinu. Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, var með erindi og tók þátt í pallborðsumræðum.


Jafnréttismálin efld með Jafnréttisvísi Capacent

Landsbankinn er aðili að Jafnréttisvísi Capacent sem er viðamikið verkefni þar sem staða jafnréttismála innan bankans var metin með ítarlegri greiningu. Allt starfsfólk bankans kom að verkefninu en það hófst árið 2018. Við innleiðingu Jafnréttisvísanna voru sett markmið í 6 flokkum til ársins 2022.

Á árinu 2019 var margt gert til að ná þessum markmiðum. Starfsþróunar- og mentorakerfi var komið á fót til styrkja starfsfólk í eigin starfsþróun. Markvisst var skráð hverjir komu fram fyrir hönd bankans í fjölmiðlum og ráðstefnum. Það reyndist gott aðhald og í lok árs var kynjaskiptingin jöfn. Á árinu var innleidd viðbragðsáætlun við einelti, kynbundnu misrétti, kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO) og hún kynnt starfsfólki. Við ráðningu starfsfólks hefur verið haldið utan um kynjahlutfall umsækjenda og viðtalsboðun skráð, auk upplýsinga um endanlega ráðningu Enn fremur er unnið að því að upplýsa stjórnendur um ómeðvitaða fordóma og leiðir til þess að draga úr áhrifum þeirra.


Markmið til ársins 2022 unnin með Jafnréttisvísi Capacent

  • Starfsþróunar- og mentorakerfi, að koma á fót úrræðum fyrir starfsfólk til að styrkja eigin starfsþróun.
  • Fyrirmyndir, kynjaskipting þeirra sem koma fram fyrir hönd bankans.
  • Menning. Að ferlar varðandi EKKO verði skýrir og trúverðugir og starfsfólk fái reglulega fræðslu um EKKO.
  • Fræðsla. Viðburðir um jafnréttismál og fræðsluátak meðal starfsfólks.
  • Ráðningarferli, að vinna að því að útrýma ómeðvituðum fordómum úr ferlinu.
  • Jöfn staða kynja, að ná 40/60 kynjahlutfalli í öllum stjórnunarlögum.

Megináherslur í jafnréttismálum eru:

  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem karlar og konur eiga jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu.
  • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna og að ákveðin störf flokkist ekki sem sérstök karla- eða kvennastörf.
  • Landsbankinn greiðir konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf.
  • Landsbankinn er vinnustaður þar sem starfsfólk getur samræmt vinnu og einkalíf.
  • Landsbankinn líður ekki einelti, fordóma, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni né kynbundið ofbeldi.
  • Landsbankinn gætir þess að starfsfólk hafi sömu tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu.

Áskoranir í mannauðsmálum

Fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í mannauðsmálum. Landsbankinn þarf að vera eftirsóknarverður vinnustaður til framtíðar og brúa bilið sem kann að myndast með breyttri aldurssamsetningu vinnuafls. Störfin eru að breytast vegna sjálfvirknivæðingar og huga þarf að færniþróun starfsfólks til að tryggja rétta hæfni og kunnáttu í hverju starfi.

Fræðslustarf í tölum
3.139 Þátttakendur í fræðsluviðburðum hjá Landsbankanum á árinu 2019 voru 3.139 talsins.
166 Boðið var upp á 166 fræðsluviðburð hjá Landsbankanum á árinu 2019.
3 Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali 3 viðburði í fræðsludagskránni.
5 Hver starfsmaður lauk að meðaltali 5 rafrænum námskeiðum.

Viðamikið fræðslustarf

Áhersla er lögð á að bjóða upp á starfsumhverfi sem hvetur starfsfólk til að læra nýja hluti og miðla þekkingu sinni. Starfsfólk er hvatt til að sækja fræðslu hvort sem er utan eða innan bankans. Fræðsludagskráin er afar fjölbreytt og nýtt fræðslukerfi gerir bankanum kleift að bjóða upp á rafræna fræðslu í auknum mæli. Á árinu 2019 var boðið upp á 42 rafræn námskeið og luku 4800 starfsmenn námskeiðunum. Hver starfsmaður lauk að meðaltali um 5 rafrænum námskeiðum.

Á árinu 2019 sótti 89% starfsfólks sér einhverja starfstengda símenntun eða fræðslu á vegum bankans sem ekki telst vera skyldufræðsla.

Nýir færniþættir kynntir með öflugri fræðslu

Landsbankinn leggur áherslu á að starfsfólk eflist og þróist í starfi. Á árinu 2019 var lagt upp með að halda áfram að koma markvisst á framfæri skilaboðum um mikilvægi og ávinning þess að sækja þekkinguna. Sú vinna hófst árið 2018. Starfsfólki stóð til boða náms- og starfsráðgjöf sem veitti því tækifæri til að greina eigin stöðu og stuðla að eigin starfsþróun. Lögð var áhersla á að kafa enn dýpra með því að kynna og fræða um þá færniþætti sem æskilegt og eftirsóknarvert er að hafa í breyttu starfsumhverfi nútímans.


Þátttaka starfsfólks í símenntun árið 2019

Markviss starfsþróun

Á árinu var verkefnið markviss starfsþróun sett á laggirnar í fyrsta sinn þar sem Mannauðsdeild bankans auglýsti eftir upprennandi leiðtogum eða sérfræðingum sem hefðu áhuga á að taka þátt. Alls bárust 45 umsóknir og fengu 18 þátttakendur tækifæri til þátttöku.

Þátttakendur fá m.a. einstaklingstíma í markþjálfun og stuðning við að byggja upp starfsþróunaráætlun. Þau taka þátt í námskeiðum og vinnustofum sem styrkja starfsfólk jafnt í starfi sem og persónulega. Starfsfólk byggir upp færni í þeim þáttum sem falla undir svokallaða 21. aldar færniþætti. Reynslan af verkefninu er mjög jákvæð og verður áframhald á því.

Nýliðaþjálfun

Árið 2019 var nýliðaþjálfun færð á rafrænt form. Námslínan inniheldur níu rafræn námskeið sem snúa meðal annars að almennum starfsreglum og siðasáttmála bankans.

Meginverkefni í fræðslumálum árið 2019:

  • Markviss starfsþróun
  • Rafræn nýliðaþjálfun.
  • 21. aldar færni
  • Stafrænt læsi

Stafrænt læsi

Boðið var upp á fyrirlestraröð á árinu 2019 undir heitinu 21. aldar færni. Þar var fjallað um stafrænt læsi sem er einn af þremur færniþáttum sem falla undir hugtakið 21. aldar færni. Undir stafrænt læsi fellur upplýsingalæsi, miðlalæsi (fjölmiðlar og samfélagsmiðlar) og tæknilæsi. Einstaklingar sem búa yfir þessari færni eiga að geta greint aðalatriði og notað efni á réttan hátt. Fyrirlestrarnir sem voru á dagskrá fjölluðu m.a. um börn og netið, persónuupplýsingar á netinu, falsfréttir og framtíð lýðræðis, og netöryggismál.


Færniþættir 21. aldar

Náms- og nýsköpunarhæfni Stafrænt læsi Styrkleikar í starfi og lífi
Gagnrýnin og lausnamiðuð hugsun Upplýsingalæsi Sveigjanleiki og aðlögunarhæfni
Sköpunargleði og nýsköpun Miðlalæsi Frumkvæði og sjálfstæði
Samskiptahæfni Tæknilæsi Félagsleg og þvermenningarleg samskipti
Samvinnuhæfni
Afköst og áreiðanleiki

EKKO - Forvarnar- og viðbragðsáætlun innleidd

Á árinu 2019 var haldið áfram með innleiðingu á forvarnar- og viðbragðsáætlun við einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi (EKKO). Starfsfólk bankans fékk fræðslu um málefnið á vormánuðum en áður höfðu vinnustofur fyrir stjórnendur bankans verið haldnar. Með innleiðingunni er vonast til að auka meðvitund starfsfólks og tryggja faglega úrvinnslu. Mæling á tíðni atvika (upplifun) og tíðni tilkynninga er hluti af árlegri vinnustaðagreiningu.

Starfsandinn aldrei betri

Á fyrsta fjórðungi á hverju ári framkvæmir Landsbankinn ítarlega vinnustaðagreiningu og aðra umfangsminni á haustin. Sú síðarnefnda kallast Bankapúlsinn og hefur það að markmiði að fylgja eftir þeim umbótamarkmiðum sem sett eru í kjölfar vinnustaðagreiningar. Saman gefa þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um líðan og viðhorf starfsfólks til vinnustaðarins. Mælingar ársins 2019 sýna að stolt og starfsánægja innan bankans er mikil og stöðug á milli ára. Það sama má segja um starfsandann, en mælingar sýna að hann er mjög góður. Sérstaklega er ánægulegt að sjá að hann heldur sér frá árinu 2018 en þá hafði hann aldrei mælst hærri.

Heildaránægja*

*Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu hjá Landsbankanum.

Stolt*

*Ég er stolt(ur) af því að vinna hjá Landsbankanum.

Starfsandi*

*Mér finnst góður starfsandi í minni deild / mínu útibúi.

Áhættumat á andlegri og félagslegri heilsu

Ákveðið var að ganga til samstarfs við Auðnast ehf. um framkvæmd áhættumats á andlegri og félagslegri heilsu. Í matinu felst einnig skimun á líkamlegri heilsu og fer allt starfsfólk í heilsufarsmælingu í tengslum við það. Tilgangur með gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað er að fyrirbyggja og draga úr vanlíðan og heilsutjóni sem starfsfólk getur orðið fyrir við vinnu sína.

Frammistöðusamtöl

Í Landsbankanum er notað frammistöðumatskerfi sem byggir á frammistöðusamtölum milli starfsmanns og yfirmanns. Í frammistöðusamtali setur starfmaður sér markmið og fær skýra endurgjöf frá yfirmanni um það sem vel hefur gengið og það sem betur mætti fara. Miðað er við að starfsfólk fari í þrjú samtöl yfir árið. Það fer þó eftir stjórnendum og eðli starfa hvort samtölin séu þrjú yfir árið eða eitt yfirgripsmeira samtal árlega.


Stöðugildi í árslok

*Mestu munaði um samruna Landsbankans og SP-KEF.