Markaðir


Á árinu 2019 jókst umfang eigna í stýringu hjá samstæðu Landsbankans og tókst að tryggja viðskiptavinum góða ávöxtun. Þjónusta við viðskiptavini var bætt með ýmsum hætti og voru verðbréfaviðskipti m.a. gerð aðgengilegri.

Fara neðar
Umfang eignastýringar Landsbankans hélt áfram að aukast á árinu 2019. Í árslok voru um 475 milljarðar króna í stýringu hjá samstæðunni.

Vönduð og alhliða eignastýringarþjónusta

Landsbankinn býður upp á alhliða eignastýringarþjónustu, jafnt fyrir einstaklinga sem eru að byrja að byggja upp eignasafn sem og eigendur stærri eignasafna. Bankinn veitir ráð um val á sparnaðarleiðum og uppbyggingu á eignasafni, allt eftir stöðu og markmiðum hvers og eins. Landsbankinn býður upp á sérsniðna eignastýringu fyrir lögaðila, þ.m.t fyrirtæki, styrktarsjóði og lífeyrissjóði.

Eignir í stýringu*

475milljarðar króna

*Að meðtöldum lífeyrissparnaði

Heildareignir í stýringu hjá samstæðu Landsbankans (ma.kr.)*
*Að meðtöldum lífeyrissparnaði.

Mjög góð ávöxtun hjá Íslenska lífeyrissjóðnum

Árið 2019 var einstaklega gott hjá Íslenska lífeyrissjóðnum en sjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann sem annast stýringu og daglegan rekstur sjóðsins. Hrein raunávöxtun deilda sjóðsins var á bilinu 4,6-12,5%, samkvæmt óendurskoðuðum niðurstöðum. Hrein raunávöxtun samtryggingardeildar var 10,4%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar samtryggingardeildar sl. fimm ár var 5,8% og 4,9% sl. tíu ár. Hrein raunávöxtun Líf I, sem er stærsta séreignardeild sjóðsins, var 12,5% á árinu 2019. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar í Líf I sl. fimm ár var 5,9% og 5,8% sl. tíu ár.

Vöxtur sjóðsins hefur verið mikill á liðnum árum en hrein eign til greiðslu lífeyris nemur nú um 100 milljörðum króna. Frá árinu 2015 hefur sjóðurinn tvöfaldast að stærð sem má bæði þakka fjölgun sjóðfélaga og góðri ávöxtun.

Fjölgun virkra sjóðfélaga Íslenska lífeyrissjóðsins árið 2019

11%
Lífeyrissparnaður í stýringu (ma.kr.)*
*Að meðtalinni Lífeyrisbók.

Aðgangur að erlendum kauphöllum

Í júní 2019 gerðist Landsbankinn meðlimur í kauphöllum NASDAQ í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki og getur átt milliliðalaus viðskipti með skráð verðbréf á þessum mörkuðum. Þessir markaðir bjóða upp á fjölda fjárfestingartækifæra í ólíkum tegundum verðbréfa og atvinnugreinum. Áður þurfti bankinn að nýta þjónustu annars fjármálafyrirtækis til að eiga viðskipti í þessum kauphöllum með tilheyrandi kostnaði. Aðild Landsbankans að kauphöllunum lækkar kostnað viðskiptavina vegna verðbréfaviðskipta.

Ábyrgar fjárfestingar á alþjóðlegum vettvangi

Landsbankinn leggur mikla áherslu á að bjóða upp á gott vöruúrval, jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi. Landsbréf hf., dótturfélag bankans, býður upp á erlenda verðbréfasjóði og Landsbankinn er auk þess í samstarfi við fjölmörg þekkt erlend sjóðastýringarfyrirtæki. Meðal samstarfsaðila bankans eru UBS, LGT Capital Partners, AllianceBernstein, BlackRock, T. Rowe Price Funds og Axa Investment.

Frá því að Landsbankinn setti sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar árið 2013 hefur verið unnið markvisst að innleiðingu hennar. Tilgangurinn er að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir.

Um mitt ár 2019 undirrituðu Landsbankinn og Landsbréf þjónustusamning um kaup á framkvæmd UFS-mats (e. ESG rating) á útgefendum hlutabréfa og skuldabréfa í stýringu félaganna. Þannig er verið að færa innleiðingu á starfsháttum ábyrgra fjárfestinga á næsta stig í takt við þá vegferð sem bankinn og Landsbréf hafa markað sér. UFS stendur fyrir umhverfis- og félagslega þætti og góða stjórnarhætti.

Nánar er fjallað um ábyrgar fjárfestingar í kaflanum um samfélagsábyrgð.

  • Mikilvægt er að huga tímanlega að lífeyrismálum, því lífeyrir hefur mikil áhrif á það svigrúm sem fólk hefur til að njóta lífsins eftir starfslok og veitir sveigjanleika til að hætta fyrr að vinna.

Umræðan: Lifið eftir vinnu
Vestmannaeyjar sólsetur

Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans kom að fjölbreyttum verkefnum

Landsbankinn annaðist útboð og skráningu á skuldabréfum fyrir meðal annars Almenna leigufélagið, Fagfjárfestasjóðinn Landsbréf - BÚS I og Landsbankann í samræmi við útgáfuáætlun. Jafnframt var Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans samstarfsaðili Lánasjóðs sveitarfélaga vegna fyrirhugaðrar útgáfu á grænum skuldabréfum. Landsbankinn var annar umsjónaraðila almenns útboðs Marel á Íslandi, en útboðið var hluti af alþjóðlegu hlutafjárútboði sem haldið var í tengslum við skráningu félagsins í Euronext kauphöllina í Amsterdam. Af öðrum verkefnum má nefna umsjón með söluferli á eldsneytisstöðvum Dælunnar og ráðgjöf fyrir eigendur Bernhard í tengslum við sölu á rekstri Honda umboðsins á Íslandi til Bílaumboðsins Öskju.

Mikilvæg viðskiptavakt

Það er lykilatriði fyrir innlendan markað að til staðar sé öflug viðskiptavakt með bréf helstu útgefenda. Árið 2019 sinnti Landsbankinn samningsbundinni viðskiptavakt með hlutabréf Arion banka, Eimskips, Heimavalla, Sýnar, Icelandair, Marels, Festi, Origo, Regins, Reita, Símans, Sjóvár, Skeljungs og VÍS. Þá er Landsbankinn aðalmiðlari og viðskiptavaki með skuldabréf útgefin af ríkissjóði, Íbúðalánasjóði, Lánasjóði sveitarfélaga og Reykjavíkurborg. Landsbankinn er einnig viðskiptavaki með sértryggð skuldabréf útgefin af Arion banka og Íslandsbanka.

Gjaldeyrisviðskipti sem uppfylla þarfir viðskiptavina

Gjaldeyrisviðskipti eru mikilvægur hluti af þjónustu Markaða við viðskiptavini. Fyrirtæki hafa nú í auknum mæli verið að nýta sér varnir til að tryggja greiðsluflæði og festa bæði tekjur og gjöld. Landsbankinn er viðskiptavaki með íslensku krónuna á millibankamarkaði og því í góðri stöðu til að uppfylla þarfir viðskiptavina þegar kemur að bæði stundarviðskiptum og áhættuvörnum.

Velta með verðbréf hefur aukist síðustu ár. Markaðir Landsbankans unnu, ásamt Lánasjóði sveitarfélaga, að vottun á umgjörð fyrir útgáfu á grænum skuldabréfum Lánasjóðsins. Markaðir annast einnig sölu skuldabréfanna.

Landsbankinn undirritaði á árinu yfirlýsingu um að bankinn ætli að haga gjaldeyrisviðskiptum sínum í samræmi við FX Global Code sem eru alþjóðlegar reglur um góða framkvæmd gjaldeyrisviðskipta. Reglunum er ætlað að stuðla að trausti, sanngirni og viðeigandi gagnsæi á gjaldeyrismarkaði. Bankinn hefur kynnt sér reglurnar og viðmiðin sem í þeim felast og hefur gert viðeigandi ráðstafanir til að aðlaga starfsemi sína að þeim.

Kólnandi hagkerfi og betri verðbólguhorfur

Fyrstu níu mánuði ársins mældist hagvöxtur aðeins 0,2% samanborið við 4,8% hagvöxt árið 2018. Kólnun hagkerfisins skýrist einkum af fækkun erlendra ferðamanna um 14,2% á árinu. Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verulega hægi á hagvexti á næstu árum eftir kröftugan vöxt síðustu ár. Samkvæmt spá Hagfræðideildar dróst landsframleiðslan lítillega saman árið 2019 í heild og hagvöxtur því neikvæður um u.þ.b. 0,4%. Árið 2020 er reiknað með hóflegum efnahagsbata og að hagvöxtur verði jákvæður um 2% en aukist síðan lítillega árin 2021 og 2022.

Verðbólguhorfurnar bötnuðu þegar leið á árið og nú er gert ráð fyrir að verðbólga verði í stórum dráttum í samræmi við verðbólgumarkmið næstu þrjú ár, enda gengið út frá því að hagvöxtur verði í takt við langtímaframleiðslugetu þjóðarbúsins. Í desember 2019 mældist 2,0% verðbólga í samanburði við 3,7% í desember 2018. Verðbólguvæntingar lækkuðu einnig í átt að markmiði á árinu. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði var í lok árs 2019 á bilinu 2,1-2,5% samanborið við 4,4-4,7% í lok árs 2018.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hóf vaxtalækkunarferli með 0,5 prósentustiga lækkun stýrivaxta þann 21. maí 2019, en það var fyrsti fundur nefndarinnar eftir að WOW air fór í greiðslustöðvun og endanlega varð útséð um loðnuveiði á árinu. Alls lækkaði nefndin vexti um 1,5 prósentustig á árinu og voru meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, 3,0% í lok árs.

Krónan stöðug á árinu 2019

Gengi íslensku krónunnar var nokkuð stöðugt á árinu. Í lok árs 2019 stóð evran í 133,1 krónu samanborið við 137,7 krónur í lok árs 2018. Evran fór hæst í 141,8 krónur um miðjan júlí, en lægst í 132,6 seinni hluta mars. Alls hækkaði verð á evru um 2,0%, Bandaríkjadalur um 4,3% og sterlingspund um 8,3% milli ársloka 2018 og ársloka 2019.

Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri var 181 ma.kr. sem er svipað og árið 2018 (187 ma.kr.). Þar af var velta Seðlabanka Íslands 14,4 ma.kr., sem er 8,6% af heildarveltu.

Flökt krónunnar á gjaldeyrismarkaði (mælt sem staðalfrávik á breytingu milli daga á ársgrundvelli) nam 6,6% árinu 2019 í samanburði við 8,1% 2018 og 10,4% 2017.

Hagspá

  • Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans til ársins 2022 er birt á Umræðunni.

Hagspá Hagfræðideildar Landsbankans

Gott ár á hlutabréfamarkaði

Verulega hægði á hagvexti árið 2019 eftir kröftugan hagvöxt undanfarin ár. Þrátt fyrir fall WOW air og neikvæðan þrýsting á innlent efnahagslíf hækkaði Úrvalsvísitala hlutabréfa, að teknu tilliti til arðgreiðslna (OMXI10GI), um 33,2 % á árinu 2019. Vaxtalækkanir á árinu ásamt miklum hækkunum á bréfum Marel, sem vega þungt í vísitölunni, hafa stutt við hækkun hennar. Vel heppnuð tvískráning Marel í Euronext kauphöllina í Amsterdam var jákvæð fyrir stærsta skráða fyrirtæki Íslands.

Vísitala allra skráðra félaga á aðallista (OMXIGI) hækkaði um 27,8% á árinu 2019 og ef miðað er við að öll félög hafi sama vægi nam hækkunin 14,7%. Að teknu tilliti til arðgreiðslna hækkuðu hlutabréf Marel mest, um 68,5%, og hlutabréf Símans næst mest, um 44,6%. Hlutabréf Icelandair lækkuðu mest, um 21,2% og hlutabréf Sýnar lækkuðu um 16,3%.

Erlendir hlutabréfamarkaðir áttu einnig margir gott ár. Heimsvísitala erlendra hlutabréfa (MSCI World Index) hækkaði um 25,2% á árinu, mælt í Bandaríkjadölum, og S&P 500 vísitalan hækkaði um 28,9%.

Síðastliðið ár litaðist af mikilli óvissu um rekstrarumhverfi flugfélaganna Icelandair og WOW air, fyrst vegna gjaldþrots WOW air og seinna vegna vandræða í kringum Boeing MAX flugvélar Icelandair.

Eitt nýtt félag, Icelandic Seafood International, var skráð á aðallista Kauphallarinnar á árinu. Aflétting hafta vorið 2019 hafði jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn og íslenski hlutabréfamarkaðurinn færðist upp í flokk vaxtarmarkaða (e. frontier market) í vísitöluskráningu FTSE-Russel um haustið. Vonir standa til að hlutabréfamarkaðurinn komist í flokk vaxtarmarkaða hjá MSCI-vísitölufyrirtækinu á árinu 2020.