Ánægja viðskiptavina með þjónustu Landsbankans við fyrirtæki hefur aldrei mælst meiri. Stefna bankans er að bjóða upp á framúrskarandi persónulega þjónustu og sífellt öflugri tæknilausnir til að tryggja fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum fyrirmyndarþjónustu.
Á heildina litið var árið 2019 mjög gott á fyrirtækjamarkaði. Eftir mikinn vöxt í þróttmiklu atvinnulífi á undanförnum árum er þó byrjað að bera á auknum slaka í hagkerfinu.
Lánasafn bankans til fyrirtækja stækkaði hóflega á árinu. Hlutdeild Landsbankans í útlánum til fyrirtækja er mest meðal stóru bankanna þriggja, eða 41,7%, sem er 1,1 prósentustigs hækkun frá fyrra ári.*
Árið 2019 þjónaði Landsbankinn alls 24.000 fyrirtækjum og af þeim eru um 14.600 með meginviðskipti sín hjá bankanum. Á liðnu ári var áhersla lögð á að efla vöruframboð til mikilla muna, auka þjónustuna og efla hlut sjálfsafgreiðslulausna.
Framtíð bankaþjónustu felst meðal annars í greiðu aðgengi viðskiptavina að öflugum dreifileiðum fjármálaþjónustu. Framboð á sjálfsafgreiðslulausnum fyrir fyrirtæki hefur verið aukið og á árinu 2019 voru margar nýjar lausnir kynntar til sögunnar. Nýjungunum var vel tekið og notkun á stafrænum fyrirtækjalausnum bankans hefur aukist jafnt og þétt.
Nánar er fjallað um nýjungar í stafrænni þjónustu við fyrirtæki í kaflanum um betri bankaviðskipti.
Landsbankinn hefur um árabil verið leiðandi í mannvirkjafjármögnun og hefur verið umsvifamikill í fjármögnun nýrra íbúða og hótelbygginga. Mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðarhúsnæði á undanförnum árum og bankinn hefur verið bakhjarl margra verktaka sem standa fyrir byggingu íbúða.
Um síðustu áramót voru stærri verkefni á þessu sviði sem bankinn fjármagnar 130 talsins, á vegum tæplega 100 verktakafyrirtækja. Hótelverkefnin voru þrjú og atvinnuhúsaverkefni fjögur. Verkefni sem sneru að byggingu nýs íbúðarhúsnæðis voru langsamlega fyrirferðarmest en alls voru 123 slík verkefni, sem fjármögnuð eru af Landsbankanum, yfirstandandi um síðastliðin áramót.
Umrædd verkefni snúa að byggingu á 4.750 íbúðum sem munu flestar koma inn á fasteignamarkað á árunum 2020 og 2021. Af þessum íbúðum eru 936 leiguíbúðir á borð við íbúðir á stúdentagörðum og almennar leiguíbúðir, í eigu félaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni. Stærsti hluti íbúðanna er á höfuðborgarsvæðinu en jafnframt voru stærri verkefni á þessu sviði á Selfossi, Akranesi og í Reykjanesbæ. Gera má ráð fyrir að á næstunni muni draga nokkuð úr stærri fasteignaverkefnum.
Landsbankinn hefur með ýmsum hætti lagt vexti og viðgangi ferðaþjónustunnar lið á hröðu vaxtarskeiði hennar á síðustu árum. Ferðaþjónustan óx hratt allt til ársins 2018 en nokkur samdráttur hefur orðið í greininni í kjölfar falls WOW air í mars 2019. Þannig fækkaði erlendum ferðamönnum milli áranna 2018 og 2019, en engu að síður komu tæplega 2 milljónir ferðamanna til landsins á árinu. Þess er vænst að þeim fari hægt fjölgandi á næstu árum. Ferðaþjónustan er sem fyrr sú atvinnugrein sem aflar mesta gjaldeyrisins og gera má ráð fyrir að svo verði áfram á næstu árum.
Landsbankinn fjármagnar nú byggingu þriggja hótela sem byrjað var á árið 2018, alls með 310 hótelherbergjum. Tvö hótelanna verða tekin í notkun á þessu ári og eitt á árinu 2021. Þótt dregið hafi úr fjölgun ferðamanna er nýting hótelherbergja engu að síður mikil hér á landi, sér í lagi yfir sumarmánuðina.
Bankinn hefur verið áhugasamur um að sinna góðum uppbyggingarverkefnum á breiðu sviði innan ferðaþjónustunnar, m.a. í afþreyingu fyrir ferðamenn. Þá hefur ITF I, sem er sérhæfður ferðaþjónustusjóður í umsjón Landsbréfa hf., dótturfélags bankans, lagt hlutafé í mörg spennandi fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þá tekur Landsbankinn þátt í Íslenska ferðaklasanum en bankinn hefur verið þátttakandi í klasasamstarfi í ferðaþjónustu frá upphafi samstarfsins árið 2012.
Árið 2019 var fremur farsælt ár í sjávarútvegi. Rekstur gekk almennt vel og áfram var fjárfest í nýjum skipum og búnaði. Þessi þróun skapaði tækifæri fyrir Landsbankann með auknum viðskiptum við núverandi viðskiptavini en jafnframt bættust nýir viðskiptavinir í hópinn, sem var mjög ánægjuleg þróun.
Markaðshlutdeild Landsbankans í sjávarútvegi er áfram sterk og samkeppnisstaðan hefur batnað með lægri fjármagnskostnaði og hagkvæmum rekstri. Horfur í sjávarútvegi eru góðar, gengi krónunnar hefur heldur veikst, veiðigjöld lækkað og helstu fiskistofnar eru sterkir.
Í kjölfar mikillar uppbyggingar í landbúnaði eru áherslur næstu ára á hagkvæman rekstur. Búrekstur gengur almennt vel og horfur eru með ágætum. Landsbankinn verður hér eftir sem hingað til sterkur bakhjarl íslensks landbúnaðar.
Eftir mikla aukningu í viðskiptum við fyrirtæki í verslun og þjónustu á árunum 2017 og 2018 hélt bankinn leiðandi stöðu sinni í þessum atvinnugreinum á árinu 2019. Til verslunar og þjónustu telst fjölbreyttur hópur viðskiptavina á sviði heildsölu, smásölu, flutninga, upplýsingatæki og annarrar þjónustu. Nýir viðskiptavinir bættust í viðskiptavinahóp bankans en einnig var unnið að fjölda spennandi verkefna með núverandi viðskiptavinum með það að markmiði að styðja við vöxt þeirra. Vel dreift lánasafn bankans til fyrirtækja í verslun og þjónustu rennir styrkum stoðum undir útlánasafn bankans til fyrirtækja.
Í Fyrirtækjamiðstöðinni í Borgartúni 33 geta minni og meðalstór fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu fengið alla þá fjármálaþjónustu sem þau þarfnast. Þar fer einnig fram einfaldari dagleg þjónusta við stórfyrirtæki sem eru í viðskiptum við Landsbankann. Í Fyrirtækjamiðstöðinni er mikil þekking samankomin á einum stað. Boðleiðir eru stuttar og njóta viðskiptavinir góðs af.
Útlánavöxtur Fyrirtækjamiðstöðvarinnar á árinu 2019 var hóflegur en framan af ári hafði bið eftir niðurstöðum kjarasamninga og fall WOW air talsverð áhrif á eftirspurn eftir lánsfé.
Hvert fyrirtæki sem er í viðskiptum við bankann er með viðskiptastjóra sem er fastur tengiliður þess innan bankans. Viðskiptastjórarnir eiga að sjá til þess að aðgengi fyrirtækjanna að allri þjónustu bankans sé sem best og þörfum þess sé mætt eins og kostur er. Kappkostað er að starfsfólk bankans hafi sem besta þekkingu á rekstri þeirra fyrirtækja sem þau eru í tengslum við til að geta brugðist hratt við þegar á þarf að halda.
Á árinu 2017 hóf Landsbankinn að bjóða upp á 360° samtöl fyrirtækja og mæltust þau mjög vel fyrir. Í þeim er farið yfir rekstur fyrirtækjanna, framtíðaráætlanir eigenda og hvernig Landsbankinn geti orðið að liði. Á árinu 2019 var áfram rætt við mikinn fjölda viðskiptavina og fundu viðskiptastjórar í Fyrirtækjamiðstöðinni og í útibúum bankans um allt land fyrir mikilli ánægju með þessi samtöl hjá viðskiptavinum.
Samhliða áherslu á gott aðgengi viðskiptavina að fjármálaþjónustu leggur Landsbankinn ríka áhersla á að fylgjast með og greina það umhverfi sem fyrirtækin starfa í og koma slíkum upplýsingum til viðskiptavina. Í þeim tilgangi stóð bankinn á árinu 2019 m.a. fyrir fræðslu fyrir fyrirtæki um netöryggi, ráðstefnu um stöðu ferðaþjónustunnar og málstofu um sölu á íslensku sjávarfangi í erlendum netverslunum á Sjávarútvegsráðstefnunni 2019. Hjá Hagfræðideild Landsbankans á sér stað öflug rannsókn og greining á þróun efnahagsmála sem kynnt er með reglulegri útgáfu, fundum og ráðstefnum. Starfsfólk bankans deilir einnig þessum fróðleik með viðskiptavinum í beinum samtölum.
Nánar er fjallað um greiningu og útgáfu bankans í kaflanum um útgáfu.