Einstaklingar


Á árinu 2019 veitti Landsbankinn 1.056 fjölskyldum eða einstaklingum lán vegna kaupa á þeirra fyrsta heimili og er markaðshlutdeild bankans í lánum til kaupa á fyrstu fasteign um 38%. Ánægja viðskiptavina með þjónustu bankans hefur aldrei verið meiri.

Fara neðar
Landsbankinn hefur verið með hæstu markaðshlutdeild á einstaklingsmarkaði sex ár í röð. Kannanir Gallup sýna að á sama tíma hefur traust til bankans og ánægja með þjónustuna aukist jafnt og þétt.
Markaðshlutdeild - Einstaklingsmarkaður
Heimild: Gallup

Einfaldari og aðgengilegri fjármálaþjónusta

Á árinu 2019 kynnti Landsbankinn fjölda nýjunga í stafrænni þjónustu sem gera bankaviðskipti einstaklinga einfaldari og aðgengilegri. Sérstök áhersla var lögð á stafrænar greiðsluleiðir og sjálfvirkni í umsóknum og afgreiðslu á skammtímalánum fyrir einstaklinga. Nánar er fjallað um nýjungar í stafrænni þjónustu í kaflanum um betri bankaviðskipti.

Íbúðalánamarkaðurinn

Landsbankinn lánaði alls um 138 milljarða króna í ný íbúðalán á árinu 2019, samanborið við 130 milljarða króna árið 2018. Umsvif bankans voru því áfram mikil á íbúðalánamarkaði, þrátt fyrir harða samkeppni. Áfram var töluverð eftirspurn eftir endurfjármögnun en vextir lækkuðu á árinu og margir sóttu sér betri kjör með því að endurfjármagna eldri lán. Landsbankinn leggur áherslu á að bjóða samkeppnishæf kjör á íbúðalánum og veita skjóta og faglega þjónustu við lánveitingar. Sífellt fleiri viðskiptavinir ganga frá greiðslumati á netinu og sækja í kjölfarið um íbúðalán hjá bankanum.

Vöxtur í óverðtryggðum íbúðalánum hélt áfram á árinu 2019. Árið 2017 var hlutfall óverðtryggðra íbúðalána 26%, sé miðað við heildarfjárhæð, en 61% á árinu 2019. Heildarfjöldi íbúðalána var rúmlega 8.100 á árinu 2019 og markaðshlutdeild bankans í nýjum íbúðalánum var 28,2% samanborið við 26% árið 2018.

Markaðshlutdeild í nýjum íbúðalánum 2019

28,2%
Heimild: Gallup
Ný íbúðalán (ma. kr.)
 

Markaðshlutdeild í lánum til fyrstu kaupa var 38%

Landsbankinn lánar fyrir allt að 85% af kaupverði íbúðarhúsnæðis. Lánað er fyrir allt að 70% af kaupverði til allt að 35 ára og einnig er boðið upp á 15% viðbótarlán sem nýtist aðallega þeim sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign. Landsbankinn styður fyrstu kaupendur með því að veita 100% afslátt af lántökugjaldi.

Á árinu 2019 lánaði bankinn til 1.056 fjölskyldna eða einstaklinga vegna fyrstu kaupa, alls um 30 milljarða króna. Markaðshlutdeild bankans í lánum til kaupa á fyrsta heimili var um 38% á árinu 2019 samkvæmt Gallup og bendir það til verulegs forskots Landsbankans þegar kemur að kaupum á fyrstu eign.

Vaxtabreytingar og hærra hlutfall breytilegra vaxta

Vextir Landsbankans lækkuðu á árinu 2019. Í upphafi árs voru lægstu óverðtryggðu vextir íbúðalána 6% en voru í lok árs 5,05%. Heildarlækkun á árinu nemur því 0,95 prósentustigum. Einnig lækkuðu verðtryggðir vextir um 0,35 prósentustig á árinu, úr 3,55% í 3,2%.

Um 79% af öllum nýjum íbúðalánum sem Landsbankinn veitti á árinu voru með breytilegum vöxtum sem er hærra hlutfall en áður.

Markaðshlutdeild í útlánum vegna fyrstu kaupa

38%
Heimild: Gallup

Söfnun Aukakróna aldrei verið meiri

Aukakrónur, fríðindakerfi Landsbankans, er í mikilli sókn. Aukakrónukorthafar hafa aldrei verið fleiri og söfnun og notkun Aukakróna hefur aldrei verið meiri.

Samtals söfnuðu viðskiptavinir rúmlega 416 milljónum Aukakróna á árinu 2019 og er það í fyrsta sinn sem söfnunarfjárhæð fer yfir 400 milljónir.

Yfir 67.000 viðskiptavinir eiga nú Aukakrónur sem þeir söfnuðu með því að nota kreditkort tengd Aukakrónusöfnun. Yfir 250 fyrirtæki í verslun og þjónustu eru samstarfsaðilar Aukakróna. Aukakrónur safnast á alla innlenda veltu kortsins auk þess sem samstarfsaðilar veita endurgreiðsluafslátt í formi Aukakróna. Í Landsbankaappinu og netbankanum geta viðskiptavinir alltaf séð hvað þeir eiga margar Aukakrónur og skoðað lista yfir samstarfsaðila. 

Skemmtilegustu símtölin fyrir jólin

  • Vikurnar fyrir jól hringir starfsfólk Þjónustuvers í viðskiptavini Landsbankans sem eiga Aukakrónur sem hafa safnast upp og ekki verið nýttar.

Aukakrónusöfnun
Aukakrónunotkun

Ánægja með 360° ráðgjöf

Landsbankinn hefur um árabil boðið viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaráðgjöf án endurgjalds undir heitinu 360° ráðgjöf en markmið hennar er að auka fjárhagslegt öryggi viðskiptavina. 360° ráðgjöf er persónusniðin fjármálaráðgjöf þar sem farið er yfir fjármál einstaklinga eða sambúðaraðila út frá öllum þáttum sem hafa áhrif á fjárhagslegt heilbrigði heimila, s.s. lán, sparnað, lífeyrissparnað og tryggingar.

Kannanir sýna að þeir viðskiptavinir Landsbankans sem fá 360° ráðgjöf eru ánægðustu viðskiptavinir bankans.

Að lokinni 360° ráðgjöf eru viðskiptavinir spurðir hvernig þeim líkaði þjónustan og hefur ánægja með 360° ráðgjöfina mælst mikil allt frá upphafi. Á árinu 2019 mældist ánægja viðskiptavina að meðaltali 4,7 af 5.

Hægt að bóka tíma í fjármálaráðgjöf

Á árinu 2019 var byrjað að bjóða viðskiptavinum að bóka fund með fjármálaráðgjafa á landsbankinn.is. Með því að panta tíma komast viðskiptavinir hjá bið og um leið fær starfsfólk betri tíma til undirbúnings og getur þar af leiðandi veitt enn betri persónulega ráðgjöf.

Ánægja viðskiptavina með 360° ráðgjöf

4,7 af 5í einkunn
Hús

Sterk staða á bílalánamarkaði

Mikill samdráttur varð í bílasölu á árinu 2019 eftir metsölu á árunum 2017 og 2018. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu var 11.731 fólksbifreið nýskráð á árinu 2019, sem er um 34,7% samdráttur frá fyrra ári. Jafnframt dróst nýskráning notaðra fólksbifreiða umtalsvert saman en alls voru rúmlega 1.900 notaðar bifreiðar nýskráðar á Íslandi árið 2019 sem var rúmlega 40% samdráttur miðað við fyrra ár.

Á undanförnum árum hafa heildarútlán vegna bílakaupa aukist í takt við aukna sölu bifreiða. Í samræmi við minni sölu fækkaði nýjum bílalánum Bíla- og tækjafjármögnunar Landsbankans á milli ára. Samdráttur í sölu notaðra bifreiða var þó mun minni sem vóg að hluta til á móti samdrættinum. Heildarfjárhæð nýrra útlána til einstaklinga dróst saman um rúm 25% á milli ára, mun minna en sem nemur samdrætti í bílasölu, sem er til marks um sterka stöðu bankans á þessum markaði. Alls lánaði Landsbankinn um 6,2 milljarða króna til einstaklinga á árinu vegna bílakaupa. Um þriðjungur af útlánum bankans vegna bíla- og tækjafjármögnunar eru lán til einstaklinga en tveir þriðju hlutar lán til fyrirtækja.


Bíla- og tækjafjármögnun Landsbankans aðstoðar einstaklinga og fyrirtæki við að fjármagna kaup á nýjum og notuðum bifreiðum, mótorhjólum, ferðavögnum, vélum og tækjum.