Fjármögnun


Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum sem námu 708 milljörðum króna í árslok 2019. Á árinu gaf bankinn út víkjandi skuldabréf í krónum og var það fyrsta víkjandi útgáfa bankans í íslenskum krónum.

Fara neðar
Fjármögnun Landsbankans grundvallast á þremur meginstoðum: innlánum frá viðskiptavinum, fjármögnun á markaði og eigin fé. Lánshæfiseinkunn Landsbankans er metin BBB+/A-2 með neikvæðum horfum af S&P Global Ratings.

Innlán frá viðskiptavinum

Stærstur hluti fjármögnunar Landsbankans er í formi innlána frá viðskiptavinum sem námu 708 milljörðum króna í árslok 2019 og eru að mestu leyti óverðtryggð og óbundin. Innlán frá viðskiptavinum jukust um 15 milljarða króna á árinu. Verðtryggð innlán námu 121 milljarði í lok árs 2019 og hækkuðu um 7 milljarða króna frá fyrra ári.

Skuldabréfaútgáfa á erlendum mörkuðum og erlendar lántökur

Erlendar skuldabréfaútgáfur eru veigamesta stoðin í fjármögnun bankans á markaði. EMTN-skuldabréfarammi bankans er tveir milljarðar evra og var stækkaður úr 1,5 milljörðum evra á árinu 2017. Fyrstu skref í útgáfum undir rammanum voru tekin haustið 2015 og hefur bankinn verið reglulegur útgefandi á erlendum skuldabréfamörkuðum síðan.

Í febrúar gaf bankinn út skuldabréf til þriggja ára að fjárhæð 500 milljónir sænskra króna og 1.000 milljónir norskra króna. Í maí gaf bankinn út skuldabréf til átján mánaða að fjárhæð 600 milljónir sænskra króna og 300 milljónir norskra króna.

Í júní voru skuldabréf að fjárhæð 350 milljónir sænskra króna og 500 milljónir norskra króna á gjalddaga. Eftirstöðvar skuldabréfanna voru greiddar upp á gjalddaga.

Í árslok námu erlendar skuldabréfaútgáfur samtals 223 milljörðum króna og jukust um 24 milljarða króna á árinu. Lántökur í erlendri mynt námu 19 milljörðum króna á sama tíma.

Samsetning fjármögnunar (m. kr.)
Endurgreiðsluferill lánsfjármögnunar (m. kr.)

Sértryggð skuldabréfaútgáfa

Útgáfurammi bankans fyrir sértryggð skuldabréf er 200 milljarðar króna og var stækkaður úr 120 milljörðum króna á árinu 2019. Útgáfa sértryggðra skuldabréfa undir rammanum er fyrst og fremst ætluð til að fjármagna íbúðalánasafns bankans og til að draga úr fastvaxtaáhættu. Á árinu 2019 voru regluleg útboð á sértryggðum skuldabréfum þar sem áður útgefnir flokkar voru stækkaðir. Óverðtryggði flokkurinn LBANK CB 19 var á gjalddaga á árinu. Samningar um viðskiptavakt á eftirmarkaði með sértryggð skuldabréf útgefin af bankanum voru endurnýjaðir á árinu. Sértryggðar skuldabréfaútgáfur bankans námu 141 milljarði króna í árslok 2019 og nam aukningin 34 milljörðum króna á árinu.

Víxlaútgáfa

Þrjú víxlaútboð voru haldin á árinu 2019 með útgáfu undir 50 milljarða króna útgáfuramma bankans fyrir víxla og skuldabréf. Víxlaútgáfa bankans nam 4 milljörðum króna í árslok 2019 samanborið við 3 milljarða króna árið áður.

Víkjandi útgáfa

Í desember gaf bankinn út víkjandi skuldabréf í krónum að fjárhæð 5,5 milljarðar króna undir 50 milljarða króna útgáfuramma bankans fyrir víxla og skuldabréf. Skuldabréfin eru verðtryggð og eru til tíu ára en innkallanleg að fimm árum liðnum. Skuldabréfaútgáfan var fyrsta víkjandi útgáfa bankans í íslenskum krónum.

Hlutafé

Eigið fé bankans nam 248 milljörðum króna í árslok 2019 og hækkaði um 8,1 milljarð króna á árinu. Landsbankinn greiddi út arð að fjárhæð 9.922 milljónir króna til hluthafa á árinu 2019. Eiginfjárhlutfall Landsbankans var 25,8% í árslok 2019.


Eiginfjárhlutfall

25,8%

Lánshæfismat Standard & Poor's

Flokkur Samtals
Langtíma BBB+
Skammtíma A-2
Horfur Neikvæðar
Útgáfudagur júlí 2019
   

Lánshæfismat

Frá ársbyrjun 2014 hefur lánshæfi Landsbankans verið metið af alþjóðlega lánshæfismatsfyrirtækinu S&P Global Ratings. Í júlí 2019 var horfum lánshæfismats bankans breytt úr stöðugum í neikvæðar og er lánshæfiseinkunn bankans nú BBB+/A-2 með neikvæðum horfum.