Skýr og skilvirk heimild einstakra aðila til að taka ákvarðanir, stýrð áhættutaka og eftirlit bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans, eru hornsteinar áhættustjórnar Landsbankans.
Áhættuþættir í rekstri bankans eru metnir með nokkrum mælistikum eftir eðli þeirra. Þær mælistikur eru m.a. nýttar við setningu áhættumarka, greiningu áhættuþátta og breytinga á þeim, miðlun upplýsinga og stjórnun áhættu. Sameiginleg mæling allra áhættuþátta er mat á eiginfjárþörf (e. economic capital).
Innra mat bankans á eiginfjárþörf vegna útlánaáhættu (útlán og kröfur á viðskiptavini og fjármálafyrirtæki) lækkaði um 1% á árinu í samræmi við jákvæða þróun á gæðum safnsins. Heildareiginfjárþörf minnkaði lítillega á árinu, eða úr 99,6 mö.kr. í 98,2 ma.kr. Gerðar voru breytingar á mati á eiginfjárþörf vegna viðskiptaáhættu á árinu og þá var líkan um geirasamþjöppun uppfært. Áhættugrunnur bankans (REA) hækkaði lítillega á árinu og var hlutfall eiginfjárþarfar af áhættugrunni 9,6% um áramót, samanborið við 10,0% í árslok 2018.
Landsbankinn hefur sett sér ítarlegar áhættureglur og byggt upp stjórnskipulag sem tryggir skýra ábyrgð og eftirfylgni við áhættustjórnun
Í áhættustjórnun felst greining, mat og stýring á áhættuþáttum í rekstri bankans. Landsbankinn setur sér ítarlegar áhættureglur og skilvirkt innra stjórnskipulag sem tryggir skýra ábyrgð, stjórnun áhættu og eftirfylgni við áhættustjórnun.
Í samræmi við áhættureglur bankans er tekið tillit til allra viðeigandi áhættuþátta í starfseminni, bæði fjárhagslegra og ófjárhagslegra, þ.m.t. útlánaáhættu, markaðsáhættu, lausafjáráhættu, samþjöppunaráhættu, rekstraráhættu, viðskiptaáhættu, lagalegrar áhættu, orðsporsáhættu, háttsemisáhættu, hlítingaráhættu, upplýsingaöryggisáhættu, gagnaáhættu og líkanaáhættu.
Innra stjórnskipulag Landsbankans lýsir nefndaskipulagi og ákvörðunarferli um helstu áhættuþætti, heimildir einstakra aðila til ákvarðanatöku, eftirfylgni og eftirliti bankaráðs, bankastjóra og einstakra nefnda bankans.
Bankaráð hefur samþykkt áhættuvilja sem er notaður sem stjórntæki til að stýra áhættutöku og sem markmið fyrir heildaráhættu í starfsemi bankans. Áhættuviljinn er endurskoðaður að lágmarki árlega eða eftir þörfum til að hann endurspegli markmið bankans um áhættutöku hverju sinni.
Við stjórnun áhættu tengdri upplýsingatækni hefur Landsbankinn að leiðarljósi að takmarka hana með vel skilgreindu verklagi við rekstur, viðhald, þróun og prófanir upplýsingakerfa og vélbúnaðar. Ein af grunnstoðum þess hvernig Landsbankinn fylgist með upplýsingatækniáhættu er áhættumat á mikilvægum eignum tengdum upplýsingatækni. Landsbankinn byggir stefnu sína í upplýsingaöryggismálum á því að tryggja heilindi og traust í samskiptum við viðskiptavini bankans. Bankinn vinnur að því að hámarka öryggi gagna og upplýsingakerfa með tilliti til trúnaðar, réttleika og tiltækileika. Meðal annars er unnið að þessu á grundvelli fylgni við ISO 27001 staðalsins um upplýsingaöryggi.
Áhættustjórnun felur í sér ferli þar sem fléttast saman áhættuvilji bankans og viðskiptaáætlun. Hluti af því ferli er bæði sjálfsmat og áhættumat sem er fylgt eftir við frekari greiningu og stjórnun áhættu. Sömuleiðis tekur stefnumótun mið af áhættuvilja og áhættustjórnun. Af þessu leiðir að áhættustefna er órjúfanlegur hluti af starfsemi bankans og áhættustjórnun er lifandi ferli sem er innleitt með öflugri áhættumenningu innan bankans.
Áhættuþáttur | Mæling |
---|---|
Útlánaáhætta |
Vænt tap |
Meðallíkur á vanefndum | |
Tap að gefnum vanefndum | |
Geirasamþjöppun | |
Lántakasamþjöppun | |
Markaðsáhætta |
Hlutabréf |
Skuldabréf | |
Gjaldeyrir | |
Vaxta- og verðtryggingaráhætta utan veltubókar | |
Verðtryggingaráhætta | |
Lausafjár- áhætta |
Lausafjárþekja - alls |
Lausafjárþekja - ISK | |
Lausafjárþekja - gjaldeyrir | |
Rekstraráhætta | Umfang rekstrar - Raunbreyting áhættugrunns |
Fjármögnunaráhætta
|
Fjármögnunarþekja - alls |
Fjármögnunarþekja - gjaldeyrir | |
Eiginfjárviðmið |
Virkt innra eftirlit er einn af hornsteinum öflugrar áhættustjórnunar og á að stuðla að því að bankinn starfi í samræmi við áhættustefnu og áhættuvilja. Samtals starfa 64 starfsmenn við innra eftirlit Landsbankans, þ.e. innan sviðsins Áhættustýringar, í Regluvörslu, sem er sérstök deild sem heyrir undir bankastjóra, og við Innri endurskoðun.
Innra eftirlit er ferli sem er mótað af stjórnendum og starfsmönnum Landsbankans. Innra eftirlit felur í sér allar þær aðgerðir sem gripið er til með það að markmiði að styðja við, stjórna, takmarka eða vakta tiltekna starfsemi og auka þannig líkur á að bankinn nái settum markmiðum.
Landsbankinn leggur áherslu á góð samskipti við eftirlitsaðila og rétta upplýsingagjöf til þeirra
Landsbankinn gefur út áhættuskýrslu þar sem gerð er ítarleg grein fyrir öllum þáttum áhættustjórnunar bankans og þeim aðferðum sem beitt er við mat á áhættu. Skýrslan uppfyllir upplýsingaskyldu samkvæmt þriðju stoð Basel III staðalsins um eiginfjárkröfur fjármálafyrirtækja.
Landsbankinn gaf út áhættuskýrslu þann 6. febrúar 2020. Skýrslan er á ensku.